Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

 Óásættanleg bílbeltanotkun barna í Grindavík
Mánudagur 3. október 2011 kl. 10:22

Óásættanleg bílbeltanotkun barna í Grindavík

Það er ljóst að Grindvíkingar verða að taka sig verulega á hvað varðar bílbeltanotkun barna sem eru á leið á leikskólana miðað við könnun Slysavarnafélagsins Landbjargar. Slysavarnadeildin Þórkatla sá um framkvæmd könnunarinnar við leikskólana Laut og Krók í Grindavík og eru niðurstöðurnar óásættanlegar fyrir Grindavík sem er í næst neðsta sæti. Frá þessu er greint á heimasíðu Grindavíkurbæjar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Umferðarstofa og Slysavarnafélagið Landsbjörg lögðu fyrir hina árlegu könnun á öryggi barna í bílum í maí s.l. Könnunin var gerð við 68 leikskóla víða um land með 2.504 þátttakendum.

Niðurstaðan varð sú að af þeim 68 leikskólum þar sem könnunin varð gerð kom í ljóst að Krókur var í 65. sæti og Laut í því 67, sem er verulegt umhugsunarefni fyrir Grindvíkinga.

Krókur: Rúm 70% barna notuðu réttan öryggisbúnað, bílstól eða púða. Tæp 15% notuðu eingöngu bílbelti en það er ekki fullnægjandi búnaður fyrir aldurshópinn og rúm 15% voru laus í bifreið, án öryggisbúnaðar.

Laut: Tæp 70% barna notuðu réttan öryggisbúnað, bílstól eða púða. Rúm 30% notuðu eingöngu bílbelti en það er ekki fullnægjandi búnaður fyrir aldurshópinn.

Grindavík kom næst verst út af öllum stöðum á landinu og er á meðal þriggja sveitarfélaga þar sem öryggi barna í bílum nær ekki 80%.

Einnig var gerð könnun á notkun ökumanna með bílbelti. Þar kom Grindavík aftur illa út, en rúm 20% ökumanna sem áttu leið á leikskólana voru ekki í bílbeltum.

Tekið skal fram að í 71. gr. umferðarlaga segir m.a. „ Ökumaður skal sjá um að í stað öryggisbeltis eða ásamt öryggisbelti noti barn viðurkenndan barnabílstól, beltispúða eða annan sérstakan öryggis- og verndarbúnað ætlaðan börnum lægri en 150 sm á hæð. Ef slíkur búnaður er ekki í bifreið skal nota öryggisbelti fyrir barnið."

Ennfremur segir í 71. gr. „Ökumaður skal sjá um að farþegi yngri en 15 ára noti öryggis- og verndarbúnað".

Ökumaðurinn ber þannig fulla ábyrgð á að barnið noti verndarbúnað. Þá er gert ráð fyrir að heimilt sé að nota eingöngu öryggisbelti ef annar búnaður er ekki til staðar. Líta má á þetta sem neyðarúrræði. Slíkt á þó ekki við börn undir þriggja ára aldri því seinna í lagagreininni segir: "Barn yngra en þriggja ára má ekki vera farþegi í fólks-, sendi- eða vörubifreið nema hún sé með viðeigandi öryggis- og verndarbúnaði ætluðum börnum." Yngstu börnin mega því ekki vera farþegar í bifreiðum öðrum en hópbifreiðum án viðeigandi öryggis- og verndarbúnaðar. Þetta þýðir að notkun á öryggisbeltum einum og sér er ekki löglegur búnaður fyrir börn undir þriggja ára í öðrum bifreiðum en hópbifreiðum.

Ökumaður sem sinnir ekki skyldum sínum um verndun barna í bíl sem hann ekur má búast við að verða sektaður um 15 þúsund krónur og að fá einn refsipunkt í ökuferilsskrá fyrir hvert barn sem er laust eða án viðeigandi öryggisbúnaðar í bílnum.