Óánægja með stóraukinn hitunarkostnað
Mikil óánægja er meðal íbúa á Vatnsleysuströnd og á dreifbýlinu út af Sandgerði þar sem hitaveitureikningar hafa hækkað mikið eftir að ný lög um jöfnun kostnaðar vegna dreifingar á raforku komu til framkvæmda um áramót.
Júlíus Jónsson, forstjóri Hitaveitu Suðurnesja, sagði í samtali við Víkurfréttir að illgerlegt væri að koma til móts við þá íbúa sem hafa þurft að taka á sig miklar hækkanir á hitunarkostnaði húsa sinna að undanförnu. Þar verða íbúar að notast við raforku til að hita hús sín þar sem þeir hafa ekki aðgang að hitaveitu. Málið verður þó tekið fyrir á stjórnarfundi HS á föstudag. „Lagning hitaveitu á svæðið mun kosta tugi milljóna,“ sagði Júlíus. „Fyrir 10 árum var ekki talin ástæða til að fara út í þær framkvæmdir og mér sýnist aðstæður ekki hafa breyst að því leyti. Málið mun þó skýrast á stjórnarfundinum.“
Nýju lögin hafa haft í för með sér nokkra hækkun víða á landinu en sjaldnast með eins ákveðnum hætti og á Vatnsleysuströnd innan kjúklingabúsins Nesbús og á Stafnesi. Arnbjörn Eiríksson, íbúi á Nýlendu í Stafnesbyggð, segir farir sínar ekki sléttar þar sem reikningurinn hjá honum hafi hækkað um 131% eftir áramót og standi nú í um 25.000 kr. á mánuði. „Þetta er hrein mismunun,“ segir Arnbjörn. „Við getum skilið rökin um að það sé dýrt að leggja hingað hitaveitu, en það þarf að gera eitthvað í málunum.“ Á svæðinu eru allnokkur lögbýli auk sumarhúsabyggðar.
Hreppsnefnd Vatnsleysustrandarhrepps lýsir undrun sinni á þessum hækkunum og hvetur stjórn Hitaveitu Suðurnesja til að hefja undirbúning við frekari lagningu hitaveitu á Vatnsleysuströnd.
Jón Gunnarsson, alþingismaður og oddviti hreppsins, segist vonast til þess að HS átti sig á hinni siðferðislegu skyldu sinni til að tryggja jafan húshitunarkostnað á svæðinu. Þá skjóti skökku við að hitaveita hafi verið lögð út í dreifbýli á milli Sandgerðis og Garðs en ekki út á Vatnsleysuströnd þar sem þó séu fyrirtæki og sumarbústaðabyggð til viðbótar við um 20 lögbýli.
Á svæðinu eru tvö stór fyrirtæki, fiskeldisstöðin Silungur og Svínabúið á Minni-Vatnsleysu, auk þess sem ungahús Nesbús er enn ekki tengt hitaveitu.
„Við vonum að stjórn Hitaveitunnar gefi okkur jákvætt svar annars munum við halda áfram að þrýsta á málið,“ segir Jón að lokum. „Þegar sveitarfélögin á Suðurnesjum komu saman og stofnuðu Hitaveituna voru ákveðin grundvallarsjónarmið í gangi. Ef þeir treysta sér ekki til að að sjá til þess að allir íbúar hafi jafnan aðgang að hitaveitu, eða tryggja að notendur þurfi ekki að greiða hærra verð fyrir rafhitun, finnst mér sem menn hafi gleymt hugsjóninni sem var byrjað með.“