Óánægja með ákvörðun Íbúðalánsjóðs
Íbúðalánasjóður hefur ákveðið að veita bæjarsjóði Reykjanesbæjar lán til leiguíbúða á árinu 2000. Lán sem ætlað er til bygginga eða kaupa á leiguíbúðum nemur tæpum 38 millj. kr. og er til 50 ára. Sjóðurinn veitir einnig lán til innlausnaríbúða sem breyta skal í leiguíbúðir. Það lán nemur 3 millj.kr. og er einnig til 50 ára. Fjölskyldu- og félagsmálaráð Reykjanesbæjar hefur lýst yfir undrun sinni og vonbrigðum með þessa afgreiðslu Íbúðalánsjóðs og lýsir jafnframt yfir áhyggjum sínum á vaxtahækkunum á lánum til félagslegra leiguíbúða. Í bókun ráðsins kemur m.a. fram að samkvæmt könnun sem gerð var á síðasta ári eru áætluð þörf fyrir 25 leiguíbúðir fyrir aldraða. „Ráðið óskar eftir því við bæjarstjórn Reykjanesbæjar að leitað verði leiða til fjármögnunar á byggingu íbúðanna, og að stjórn Íbúðalánasjóðs verði sent erindið þar sem óskað er eftir skýringum á svo takmarkaðri lánveitingu. Jafnframt verði óskað eftir við stjórn Íbúðalánasjóðs að tekið verði til afgreiðslu frekari lánsveiting eða lánsloforð til Reykjanesbæjar vegna byggingar 25 leiguíbúða fyrir aldraða. Einnig lýsir ráðið yfir áhyggjum sínum á vaxtahækkunum á lánum til félagslegra leiguíbúða þar sem sú hækkun kemur óhjákvæmilega niður á leigutökum.“