Nýttu félagsmannaafslætti fyrir 243 milljónir króna í fyrra
- Kaupfélag Suðurnesja 70 ára síðar á árinu
Kaupfélag Suðurnesja (KSK) hagnaðist um 834 milljónir króna á síðasta ári. Í KSK eru 4677 félagar sem eru eigendur félagsins. Aðalfundur þess var haldinn í síðustu viku, en félagið verður 70 ára þann 13. ágúst.
Kaupfélag Suðurnesja er stærsti eigandi Samkaupa, á 62% hlutafjár í gegnum eigið félag og dótturfélögin Fagurey og KB Framfarafélag. Jafnframt er Kaupfélag Suðurnesja 69% eigandi fasteigafélagsins Urtusteins.
Á aðalfundinum kom fram, eins og áður segir, að hagnaður móðurfélagsins var 834 milljónir á síðasta ári og hagnaður samstæðunnar var 2347 milljónir króna. Fjárhagslegri endurskipulagningu lauk á árinu 2014 og er bókfærð eiginfjárstaða KSK jákvæð. Lán félagsins eru í langtímagreiðsluferli.
Formenn deilda Kaupfélags Suðurnesja ásamt Ómari Valdimarssyni og Skúla Þ. Skúlasyni.
Tvær stærstu eignir KSK eru Samkaup og Urtusteinn. Fjárfestingar í verslunum Samkaupa á árinu 2014 við endurnýjun verslana um 180 millj. Rekstur Samkaupa 2014 var góður. Fyrri hluti ársins undir áætlun en sumarið var mjög gott. Engar nýjar verslanir opnuðu á árinu og markaðshlutdeild stóð í stað. Alls voru 47 verslanir í rekstri í lok árs og meðalfjöldi starfsmanna 865. Launagreiðslur námu 2.422 milljónum króna.
Gert er ráð fyrir 4% aukningu í veltu á þessu ári og vörusala á árinu áætluð 23,2 milljarðar króna. Áfram verður unnið að innra skipulagi félagsins, rekstrarstjórn verslana, innkaupasviðs og starfsmannasviðs.
Helstu verkefni Samkaupa á síðasta ári voru stækkun og endurnýjun verslunarinnar á Höfn, afgreiðslubúnaður í verslunum var endurnýjaður og þá var lýsing endurnýjuð í nokkrum búðum, m.a. verslun Nettó í Reykjanesbæ. Þá var haldið áfram að setja lok á djúpfrysta í verslunum en með þeim aðgerðum hefur náðst fram orkusparnaður sem svarar til notkunar 250 heimila og auka vörugæði.
Hin stóra eign KSK er Urtusteinn ehf. Tekjur þess félags voru 482 milljónir á síðasta ári. Eignir voru upp á 4,1 milljarð og hagnaður félagsins var 1,2 milljarðar króna í fyrra. Veltufé frá rekstri var 193 milljónir. Urtusteinn á samtals 31.000 fermetra af húsnæði sem er í 96% nýtingu en félagið er með leigusamninga við 95 aðila. Hagnaður félagsins skýrist helst af bakfærslu virðisrýrnunar frá fyrri árum.
Kaupfélag Suðurnesja er með vildarkerfi fyrir 4677 félagsmenn sína í formi afsláttar í verslunum Samkaupa. Í hverjum mánuði nýta félagsmenn sér félagsmannaafslætti fyrir tæplega 10 milljónir króna. Þrír stórir toppar voru í félagsmannaafsláttum á síðasta ári og var stærsti toppurinn í desember þegar félagsmenn fengu samtals 60 milljónir króna í afslátt. Alls voru afslættir til félagsmanna kaupfélaga um allt land rúmar 243 milljónir króna á síðasta ári.
Nokkrar athyglisverðar tölur úr rekstri KSK síðustu sex ára voru nefndar á aðalfundinum í síðustu viku. Þannig hefur félagið greitt 12,4 milljarða króna í laun á síðustu sex árum, fasteignagjöld upp á 363 milljónir, Virðisaukaskatt upp á 698 milljónir króna, tekjuskatt upp á 263 milljónir og tryggingagjald upp á 960 milljónir.
Frá aðalfundi Kaupfélags Suðurnesja í síðustu viku.
Margrét Sanders, formaður Samtaka verslunar og þjónustu var sérstakur gestur fundarins.
Ómar Valdimarsson, framkvæmdastjóri Samkaupa hf.
Skúli Þ. Skúlason, stjórnarformaður Kaupfélags Suðurnesja, KSK.
Frá aðalfundi Kaupfélags Suðurnesja í síðustu viku. VF-myndir: Hilmar Bragi