Nýtt TVF á sölustöðum
Suðurnesjamenn hafa eins og venjulega tekið vel á móti Tímariti Víkurfrétta en sala á blaðinu hefur gengið vel í verslununum á Suðurnesjum. Blaðið kom út sl. föstudag.
TVF hefur aldrei verið stærra en það er 68 blaðsíður að stærð og efnið er mjög fjölbreytt. Sérstakur sumarblær hvílir yfir blaðinu og er þar að finna fjölmörg viðtöl, greinar og myndir.
Persónulegt og áhrifamikið viðtal er við Fannar Ólafsson körfuboltakappa í tímaritinu þar sem hann gerir málin upp. Í TVF er Flugvöllurinn í Kabúl heimsóttur þar sem Kristján Björgvinsson slökkviliðsmaður af Keflavíkurflugvelli starfar og Gubbi nuddari segir frá þátttöku sinni í ólympíuleikunum í Grikklandi og jeppanum sem hann fékk í jólagjöf. Sigmundur slökkviliðsstjóri segir frá baráttunni við eldinn. Fitnessdrottningin Freyja Sigurðardóttir fjallar um bannið og litið er í garðinn hjá Sigrúnu Hauksdóttur. Í TVF eru myndir frá Bergásballinu og giftingum nokkurra Suðurnesjamanna, auk þess sem Qmen er á sínum stað. Þetta og miklu, miklu meira í nýju TVF sem er nú til sölu í öllum helstu verslunum landsins.