Nýtt þjónustuhús opnar á tjaldsvæðinu í Grindavík
Nýtt þjónustuhús á tjaldsvæðinu í Grindavík var opnað formlega síðasta föstudag. Þjónustuhúsið er í alla staði hið glæsilegasta og hafa tjaldsvæðisgestir í sumar lýst yfir mikilli ánægu sinni með það.
Í nóvember 2009 voru opnuð tilboð í byggingu þjónusthúss. Lægsta tilboð átti HH smíði upp á 51,8 milljónir króna en alls buðu 10 verktakar í húsið. Byggingaframkvæmdir gengu vel og skiluðu verktakar húsinu af sér í síðustu viku.
Tjaldsvæðið sjálft var opnað 2009 en það sumar var gerð viðhorfskönnun meðal gesta á nýju tjaldsvæði bæjarins. Helstu niðurstöður voru að 98% gestanna voru ánægðir með tjaldsvæðið og töldu það í háum eða góðum gæðaflokki.
Um þriðjungur erlendra gesta sem dvaldi á tjaldsvæðinu var annað hvort að koma úr flugi eða á leið í flug. Um þriðjungur valdi tjaldsvæðið til að skoða sig um í Grindavík og nágrenni. Gott orðspor virtist hafa töluverð áhrif á innlenda gesti. Flestar athugasemdir við tjaldsvæðið sem gerðar voru sneru að sturtuaðstöðu og svo þvotta- og eldunaraðstöðu. Tilkoma þjónustuhússins kemur til móts við þessar athugasemdir. Stefnt er að því að gera nýja þjónustukönnun í sumar.