Nýtt skólahúsnæði á þremur vikum
-Góður gangur í skólum í Reykjanesbæ. Áskorun að mæta mikilli fjölgun bæjarbúa á stuttum tíma
„Okkur líst mjög vel á þetta og það verður gaman að hefja skólastarfið þarna í næstu viku,“ segir Sigurbjörg Róbertsdóttir, skólastjóri Akurskóla í Reykjanesbæ, en síðustu þrjár vikur hefur verið unnið við uppsetningu tímabundins skólahúsnæðis fyrir 1.-3. bekk í Innri-Njarðvík en húsnæðið er byggt úr einingum sem koma frá Slóveníu og er þetta fyrsta hús sinnar tegundar hér á Íslandi.
Ástæða nýju skólabyggingarinnar er ört vaxandi íbúafjöldi á svæðinu og því þurfti Reykjanesbær að bregðast hratt við.
Í dag er nemendafjöldinn í 1.-3. bekk í Akurskóla kominn í 80 og enn er verið að skrá inn nýja nemendur, húsnæðið miðast hinsvegar við að geta tekið við 120 börnum. Nemendur við skólann eru börn sem eru búsett í Dalshverfi 1 og 2.
Tækjabúnaður skólans er góður en kennarar munu meðal annars nota Smart töflur við kennslu. Samrými er í skólanum sem mun vera nýtt sem mötuneyti ásamt því að þar munu verkgreinar vera kenndar og þar mun 1.-3. bekkur blandast saman í kennslustund. Í salnum verða felliborð en þannig mun gólfflöturinn nýtast til fulls og minni þörf er á geymslurými.
Íþróttakennsla fer einnig fram í salnum einu sinni í viku ásamt því að nemendur fara í Akurskóla í íþróttir og sund. Í skólabyrjun mun útisvæði sem er í tveggja mínútna göngufjarlægð frá skólanum vera nýtt til íþróttakennslu.
Kostnaður við bygginguna er í kringum 150 milljónir með allri jarðvinnu og koma allar einingarnar tilbúnar þar á meðal með pípulögnum sem sparar heilmikinn tíma en það kemur sér vel þar sem að skólinn mun taka á móti nýjum nemendum í næstu viku.
Þegar blaðamenn litu við í vikunni voru vinnumenn að vinna á fullu við það að koma öllu í sitt horf fyrir skólabyrjun en næst á dagskrá var meðal annars að malbika útileikjasvæðið og setja þar útileiktæki.
Háaleitisskóli sem staðsettur er á Ásbrú hefur einnig þurft að stækka við sig vegna fólksfjölgunar en í dag eru um sextíu fleiri nemendur skráðir í skólann en á sama tíma og í fyrra og mun sú tala eflaust fara hækkandi á næstu dögum. Þar hefur vinna við endurbætur á húsnæði gamla grunnskóla varnarliðsbarna staðið yfir undanfarna mánuði en sex nýjar kennslustofur bætast við nú í skólabyrjun. Anna skólastjóri sagðist afar ánægð með stöðuna í skólanum sem hefur stækkað með hverju árinu og vel hafi gengið að ráða starfsfólk. „Ég er með frábært starfsfólk, það eru allir mjög jákvæðir og starfið gengur vel í vaxandi skóla.“
Reykjanesbær fer ört stækkandi og í dag eru skráðir 2319 nemendur í Reykjanesbæ. Sú tala getur og mun líklega hækka eitthvað þegar nær dregur skólasetningu. Til viðmiðunar voru á sama tíma fyrir ári skráðir 2213 nemendur í grunnskólum Reykjanesbæjar.
Sigurbjörg Róbertsdóttir, skólastjóri Akurskóla með Helga Arnarssyni, Kjartani Má Kjartanssyni og Guðlaugi H. Sigurjónssyni frá Reykjanesbæ og Birki Kúld, byggingarstjóra frá Hýsi .
Nýja skólahúsnæðið er sett upp á 3 vikum en það kemur frá Slóveníu.
Séð inn í skólahúsnæðið við Akurskóla í I-Njarðvík.
Kjartan Már bæjarstjóri, Helgi Arnarsson, fræðslustjóri og Anna skólastjóri inni í einni stofunni í Háaleitisskóla.
Séð inn í aðra skólastofu þar sem í tíð varnarliðsins börn bandarískra hermanna stunduðu sitt nám.
Séð inn í sal í Háaleitisskóla. Ókeypis námsgögn í forgunni sem nemendur fá.
Nýir nemendur daglega!
Allt upp í fimm nemendur hafa bæst við í hópinn í Háaleitisskóla síðustu daga, mest börn sem eru sum ekki einu sinni komin með kennitölu því þau væru nýkomin í bæinn. „Já, það bætist við á hverjum degi. Þetta eru nánast allt börn innflytjenda sem eru komin í vinnu á svæðinu, aðallega Keflavíkurflugvelli. Við höfum verið með krakka frá mörgum löndum og það hefur gengið ótrúlega vel fyrir þau og okkur að samlagast í skólanum,“ segir Anna S. Guðmundsdóttir, skólastjóri. Hún sagði að ráðningar starfsfólks hafi gengið mjög vel, bæði í fyrra og núna. Helgi Arnarsson, fræðslustjóri Reykjanesbæjar segir að vel hafi gengið að ráða kennara í skóla bæjarins og hlutfall menntaðs starfsfólks hafi aukist.