Nýtt skip til Sandgerðis
Línuskipið Kristinn Lárusson GK 500 kom til heimahafnar í Sandgerði á mánudagskvöld. Það er fyrirtækið Eyrarsund ehf., sem gerir skipið út, og mun það sjá frystihúsi Ný-fisks ehf. í Sandgerði fyrir hráefni.Kristinn Lárusson GK, sem heitinn er eftir föður Birgis Kristinssonar í Ný-fiski ehf., verður gerður út til línuveiða. Skipið er 183 brúttórúmlestir að stærð, smíðað í Noregi árið 1963 og var það áður í eigu Þorbjörns-Fiskaness hf. Um borð er Mustad beitningarvél og er skipið útbúið til þess að frysta aflann um borð. Búið er að taka skipið í gegn í slippnum í Njarðvík. Aðalvél og gír voru tekin upp, rafmagn endurnýjað og búið er að mála skipið utan sem innan. Alls verða 14 til 15 manns í áhöfninni en skipstjóri er Ingi Rúnar Ellertsson.