Nýtt rask afar takmarkað
Nýverið var lögð fram umsókn frá HS orku og HS veitum vegna endurnýjunar stofnlagna ferskvatns og hitaveitu frá Svartsengi um 3 km leið að tengistöðum ofan bæjarstæðis Grindavíkur.
Núverandi lagnir eru komnar til ára sinna og sökum tíðra jarðskjálfta og bilana liggur mikið á þessari framkvæmd til að tryggja almenningi og fyrirtækjum í Grindavík öruggan aðgang að heitu og köldu vatni.
Skipulagsnefnd Grindavíkurbæjar hefur kynnt sér framkvæmdina og fylgja nýjar lagnir eldri lagnaleið að mestu meðfram Grindavíkurvegi og eru að stórum hluta innan veghelgunarsvæðis Vegagerðarinnar. Nýtt rask af völdum framkvæmdarinnar er því afar takmarkað en þar sem hún fer í gegnum svæði nr. 104 á náttúruminjaskrá leggur nefndin áherslu á vandað verklag og frágang.
Fyrirhuguð framkvæmd er í samræmi við Aðalskipulag Grindavíkurbæjar 2018-2032 og er því fallið frá grenndarkynningu í samræmi skipulagslög.
Skipulagsnefnd samþykkir framkvæmdarleyfisumsóknina og vísar henni til afgreiðslu bæjarstjórnar.