NÝTT ORKUREIKNINGAKERFI HJÁ HITAVEITU SUÐURNESJA
Hitaveita Suðurnesja skiptir um þessi árþúsundamót um orkureikningakerfi. Ástæða þess er sú að núverandi tölvukerfi getur ekki tekist á við nýtt árþúsund. Á orkureikningi þeim sem Hitaveita Suðurnesja sendir til viðskiptavina sinna nú um áramótin er eindagi skráður 31.12.99 en réttur eindagi er 15.01.2000.Hið nýja tölvukerfi HS verður tekið í notkun eftir áramótin en það er mun öflugra en gamla kerfið. Stefán Jón Bjarnason, fjármálastjóri HS, segir að sennilega eigi einhverjir byrjunarörðugleikar eftir að skjóta upp kollinum á nýju ári. „Það er von okkar, að þetta skapi sem minnst óþægindi fyrir viðskiptavini okkar og við biðjum um skilning þegar/ef vandamál og mistök skjóta upp kollinum. Við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að aðstoða orkukaupendur og sjá til þess að reikningar verði réttir og greiðslur skili sér á rétta staði. Samfara þessu verða ýmsar breytingar á reikningum og tilkynningum sem við sendum út. Notkun algengra hugtaka eins og gjaldagi, eindagi, útgáfudagur mun einnig breytast. Við munum reyna að gera góða grein fyrir þessum breytingum þegar fyrstu reikningarnir úr nýja tölvukerfinu okkar berast. Það verður vonandi í lok janúar eða byrjun febrúar árið 2000“, sagði Stefán Jón að lokum.