Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Nýtt húsnæði leikskólans Vesturbergs formlega tekið í notkun
Miðvikudagur 27. ágúst 2008 kl. 12:48

Nýtt húsnæði leikskólans Vesturbergs formlega tekið í notkun

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024



Nýtt húsnæði leikskólans Vesturbergs í Reykjanesbæ verður formlega tekið í notkun á morgun, fimmtudaginn 28. ágúst kl. 14:00 að Vesturbraut 15 (fyrir aftan gamla leikskólann).
Fasteign hf. hóf byggingu leikskólans í september árið 2007 og afhendir það nú Reykjanesbæ til notkunar.


Nýi leikskólinn er fjögurra deilda og rúmar alls 94 börn og kemur í stað eldra íbúðarhúsnæðis á tveimur hæðum sem breytt var í leikskóla við Vesturbrautina árið 1997.
Í tilefni af opnuninni verður opinn dagur í leikskólanum föstudaginn 29. ágúst á starfstíma skólans.


Leikskólinn Vesturberg er opinn og svæðaskiptur leikskóli þar sem áhersla er lögð á sjálfsákvörðunarrétt barnanna. Nýja Vesturberg hefur að geyma fjórar heimastofur og öll svæði í húsinu eru nefnd eftir örnefnum, svæðum eða húsum í Keflavíkurhverfi. Í samræmi við stækkunina hefur orðið helmings fjölgun barna sem og aukning starfsmanna.


Nemendur leikskólans fara frjálst um húsið en kennarar eiga fasta viðveru á svæðunum viku í senn. Svæði leikskólans er skipt upp eftir námsþáttum úr Aðalnámskrá leikskóla. Kennarar leggja áherslu á að vera til staðar fyrir nemendur, lætur þá hafa sem mest frumkvæði að gjörðum sínum en veitir þó hjálp sé um hana beðið. Áhersla er á að hjálpa nemendum til sjálfshjálpar.
Markmið svæðaskipulagsins er meðal annars að sjá til þess að hver nemandi njóti sín á eigin forsendum og að þeir fái næði og svigrúm í leik sínum. Að efla frumkvæði, sköpunarþörf og ímyndunarafl nemenda, auk þess að skapa svigrúm til að nemendur geti ræktað vináttu við aðra nemendur og kennara Vesturbergs. Nemendur eru hvattir til að vinna saman og til að auka einbeitingu þeirra er reynt að brjóta ekki upp leik þeirra og starf með skipulagi sem þau fá engu ráðið um. 

Leikskólinn er staðsteyptur og klæddur að utan með timbri að hluta og málaður að hluta. Lóð og leiksvæði eru 3350 m2 auk umhverfis KK húss þar sem bílastæði eru samnýtt og umhverfið hefur verið fegrað.


Aðalverktaki var Hjalti Guðmundsson ehf., Verktaki lóðar var Nesprýði ehf., undirverktaktar Hjalta Guðmundssonar ehf. voru: Vatnsafl, Raflagnavinnustofa Sigurðar Ingvarssonar ehf., Málningarþjónusta Magnúsar Daðasonar ehf. og Stjörnublikk ehf., Nesprýði ehf.
 

Leikskólinn var hannaður af THG arkitektum í Reykjanesbæ. Um aðra hönnun sáu Gunnar Ottósson, Tækniþjónusta SÁ ehf., Rafmiðstöðin ehf. og Verkfræðistofa Suðurnesja.
Leikskólanum er skilað með öllum búnaði og er afar fullkominn að allri gerð.


Ljósmynd: Ellert Grétarsson