Nýtt húsnæði heilsugæslu aldrei tekið í notkun
- Bæjarráð Sandgerðis vill láta endurskoða skerðingu á heilbrigðisþjónustu í bæjarfélaginu
Bæjarráð Sandgerðisbæjar lýsti yfir áhyggjum af takmörkuðum fjárheimildum ríkisins til heilsugæslusviðs HSS á fundi sínum fyrr í vikunni. Í afgreiðslu ráðsins segir að Sandgerðisbær hafi lagt í töluverða fjárfestingu vegna nýs húsnæðis fyrir heilsugæslu í bæjarfélaginu á árunum 2008 til 2009 í samráði við heilbrigðisyfirvöld.
„Vegna niðurskurðar í ríkisútgjöldum á árum eftir hrun varð ekki af því að nýja heilsugæsluhúsnæðið yrði tekið í notkun og sú þjónusta sem fyrir var lögð niður. Staðan er því sú að engin heilsugæsla er í Sandgerði sem er 1730 manna sveitarfélag,“ segir í fundargerð ráðsins. Bæjaryfirvöld í Sandgerði telja eðlilegt að endurskoða þjónustuskerðinguna.
Í afgreiðslu bæjarráðs er jafnframt bent á gríðarlega fjölgun ferðamanna á svæðinu sem auki álag á heilsugæsluna. Þá segir í afgreiðslunni að sé litið til íbúafjölda landshluta og fjárframlaga til heilsugæslu sé hlutfallslegt framlag til heilsugæslu á Suðurnesjum mun lægra en til annarra landshluta.