Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Nýtt hús ehf selur 74 hús til Reyðarfjarðar og Hveragerðis
Fimmtudagur 4. janúar 2007 kl. 13:08

Nýtt hús ehf selur 74 hús til Reyðarfjarðar og Hveragerðis

Nýtt hús ehf í Reykjanesbæ hefur nýverið gert samning um sölu og byggingu á 50 einingahúsum til Reyðarfjarðar og á 24 húsum til Hveragerðis. Heildarverðmæti beggja samninganna er á bilinu einn og hálfur til tveir milljaðar króna og eiga húsin að afgreiðast á næstu tveimur árum.

Jöklar ehf kaupir þau 50 hús sem rísa munu á Reyðarfirði og mun síðan selja þau áfram á almennum markaði. Samningurinn miðast við minnstu gerðir húsa í vörulista Nýs húss en reiknað er með að einhverjir kaupendur verði með óskir um stærri gerðir húsa.
Í Hveragerði munu rísa 24 íbúðaeiningar í raðhúsum sem verktakafyrirtækið BKR kaupir af Nýju húsi og reisir sjálft. Ráðgert er að þau verði tilbúin á þessu ári. Sá samningur hljóðar upp á 345 milljónir.
„Þessir tveir samningar fela í sér fleiri verkefni en við höfðum á öllu síðasta ári þannig að þetta er veruleg aukning hjá okkur. Við erum núna með 20 manns í vinnu en þessir samningar kalla auðvitað á aukinn mannafla. Líklega þurfum við að auka starfsmannafjöldann um helming til að mæta þessu ,” segir Lúðvík Friðriksson, framkvæmdastjóri Nýs húss ehf.

Í vörulista fyrirtækisins er að finna 40 gerðir húsa en teikningum er hægt að breyta eftir óskum kaupandans. Vörulistann er hægt að nálgast á heimasíðu fyrirtækisins á slóðinni www.nytthus.is
„Oftast eru kaupendur með einhverjar séróskir þannig að hægt er að breyta teikningunum til að mæta þeim.  Við bjóðum upp á ýmsar leiðir í byggingu húsanna frá okkur og einnig heildarlausnir að undanskilinni sjálfri jarðvinnunni. Húseigandinn sér alltaf um hana en við bjóðum upp á forsteypta sökkla sem nánast allir kaupendur nýta sér,” segir Lúðvík. Sökklarnir eru steyptir í verskmiðju fyrirtækisins í Njarðvík og fluttir tilbúnir á byggingarstað og húseiningar eru framleiddar í einingaverskmiðju að Seylubraut 1.. Yfirleitt er sá háttur hafður á að húsunum er skilað fokheldum að innan en fullfrágengnum að utan. „Húsunum á Reyðarfirði verður hins vegar skilað fullbúnum. Það eru nýmæli í þjónustu okkar og framvegis er ætlunin að bjóða viðskiptavinum okkar þennan valkost,“ segir Lúðvík.

Nýtt hús ehf hefur selt framleiðslu sína víða um land og um þessar myndir er verið að reisa hús bæði á vestur- og suðurlandi. Að sögn Lúðvíks eru sölur á húsum í undirbúningi í öllum landshlutum. Verkefni fyrirtæksins um þessar mundir eru flest  á Suðurnesjum. Lúðvík segir það koma til af því að hér hafi verið langflestar lóðaúthlutanir síðustu árin.


Mynd: Frá undirritun samnings um smíði 50 húsa á Reyðarfirði frá vinstri: Franz Jezorski, eigandi Jökla ehf, Lúðvík Friðriksson og Kjartan Ragnarsson, frá Nýju húsi ehf.



Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024