Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Fréttir

Nýtt hljóðmælingakerfi sett upp við flugvöllinn
Föstudagur 19. maí 2017 kl. 15:02

Nýtt hljóðmælingakerfi sett upp við flugvöllinn

Kerfið sýn­ir flug­um­ferð og hljóðvist í raun­tíma

Nýtt hljóðmæl­inga­kerfi verður opnað á vef Isa­via í byrj­un júní. Kerfið sýn­ir flug­um­ferð og hljóðvist í raun­tíma og hef­ur til að mynda reynst afar vel á Kast­rup-flug­velli í Kaup­manna­höfn og öðrum flug­völl­um. Þetta var meðal þess sem kom fram á opn­um íbúa­fundi sem Isa­via hélt fyr­ir íbúa á nærsvæði Kefla­vík­ur­flug­vall­ar á miðviku­dag­inn

Á fund­in­um voru kynnt áhrif fram­kvæmda við flug­braut­ir á flug­um­ferð og hljóðvist. Einnig voru kynnt­ar niður­stöður hljóðmæl­inga á svæðinu sem og nýja hljóðmæl­inga­kerfið, en sett­ir hafa verið upp þrír mæl­ar sem mæla hljóðvist ein­stakra flug­véla. Þetta kem­ur fram í til­kynn­ingu frá Isa­via.
„Framkvæmdir á flugbrautakerfi flugvallarins hafa vissulega áhrif á flugumferð, þá sérstaklega í sumar þegar álagið er sem mest ,“ segir Þröstur Söring, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Keflavíkurflugvallar

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

„Nú standa yfir framkvæmdir á brautarmótum og næst verður farið í framkvæmdir á austur-vestur flugbraut Keflavíkurflugvallar. Þetta þýðir að norður-suður braut verður eina brautin í notkun hluta sumars og viljum við hjá Isavia að allir íbúar sem búa á nærsvæði vallarins séu upplýstir um þær framkvæmdir sem standa yfir og áhrif þeirra. Einnig er verið að fjölga flugvélastæðum og munu tvö ný stæði opna í sumar. Áætlað er að framkvæmdum við flugbrautirnar ljúki í haust en þetta eru stærstu framkvæmdir á flugbrautunum í áratugi,“ segir Þröstur

Á næstu dögum mun Isavia taka í gagnið nýtt hljóðmælingakerfi frá danska fyrirtækinu Brüel & Kjær og hefur Isavia lagt mikla áherslu á aukna hljóðstigsvöktun í kjölfar aukinnar flugumferðar um svæðið. Settir hafa verið upp þrír mælar við jaðar byggðarinnar í kringum flugvöllinn sem mæla hljóðvist einstakra flugvéla í rauntíma. „Íbúar geta fylgst með þessum mælingum á vefnum og gefst tækifæri til að koma á framfæri athugasemdum varðandi einstaka flugvélar í gegnum nýja kerfið. Með þessu móti hafa íbúar í höndunum meiri upplýsingar um umferðina og flugferlana sem flognir eru og geta því sent ítarlegri athugasemdir varðandi hljóðmengun af flugumferð. Að sama skapi verður auðveldara fyrir Isavia að vinna úr athugasemdunum og komast þær í fastara ferli. Auk hljóðmælinganna mun Isavia einnig hefja loftgæðamælingar þar sem áhersla verður lögð á að kanna útblástur nituroxíða frá flugumferð yfir byggð í grennd við flugvöllinn,“  segir Valur Klemensson, deildarstjóri umhverfisdeildar Keflavíkurflugvallar

Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia og Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar ávörpuðu einnig fundinn og í lok hans gafst íbúum tækifæri til að spyrja frummælendur spurninga. Bárust margar spurningar úr sal og höfðu íbúar áhyggjur af hljóðmengun vegna aukinnar flugumferðar um völlinn. Fram kom að hljóðmælingarnar verði notaðar til þess að prófa og móta nýja flugferla í samstarfi við flugfélögin sem nota Keflavíkurflugvöll og þannig verði stefnt að því að minnka hljóðmengun í byggð eins og kostur er.
 

Hér má sjá upptöku frá fundinum