Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

  • Nýtt hjúkrunarheimili með sex víkur
  • Nýtt hjúkrunarheimili með sex víkur
Föstudagur 14. mars 2014 kl. 16:38

Nýtt hjúkrunarheimili með sex víkur

- byggingakostnaður undir kostnaðaráætlun

Nýtt og glæsilegt 60 rúma hjúkrunarheimili var opnað á Nesvöllum í Reykjanesbæ í dag að viðstöddu fjölmenni. Kristján Þór Júlíusson núverandi heilbrigðisráðherra og Guðbjartur Hannesson fyrrverandi velferðarráðherra ásamt fleirum voru viðstaddir.

„Þetta er mjög stór dagur hér á Suðurnesjum. Það hefur tekist mjög vel til,“ sagði Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ en uppbygging á Nesvöllum hófst fyrir áratug síðan.

Nýja hjúkrunarheimilið að Nesvöllum skiptist í sex deildir með 10 herbergjum hver. Þegar ráðist var í framkvæmdina var áætlaður byggingakostnaður 1.550 milljónir króna. Áætlunin stóðst og er byggingakostnaðurinn rétt undir 1,5 milljarði króna. Reykjanesbær fjármagnaði byggingarframkvæmdir samkvæmt samningi við ríkið sem síðan mun leigja hjúkrunarheimilið af sveitarfélaginu.

Nýir íbúar hjúkrunarheimilisins munu byrja að flytja inn á nýtt heimili strax um helgina. Þannig mun allt heimilisfólk af Garðvangi flytja á Nesvelli, auk þess sem hjúkrunarrými af Heilbrigðisstofnun Suðurnesja flytjast yfir á Nesvelli. Þá munu nokkrir einstaklingar af Hlévangi flytja á Nesvelli og ráðist verður í endurbætur á Hlévangi.

Hrafnista mun reka nýja hjúkrunarheimilið á Nesvöllum og taka jafnframt við rekstri Hlévangs. Garðvangur mun hins vegar loka. Dvalarheimili aldraðra Suðurnesjum eiga áfram fasteignir Garðvangs og Hlévangs.

Í dag var svo greint frá því að sex deildir hjúkrunarheimilisins að Nesvöllum fá nöfn af svæðinu með endinguna „vík“. Á 1. hæð hússins eru Selvík og Sandvík. Fagravík og Hraunsvík eru á 2. hæð en Bergvík og Fuglavík eru á þriðju hæðinni. Allar hæðir nýja heimilisins eru eins innréttaðar en litir á veggjum aðgreina hæðirnar. Sú fyrsta er gul, önnur er rauð og þriðja er græn.

Nánar verður fjallað um nýtt hjúkrunarheimili á Nesvöllum í Víkurfréttum í næstu viku og ítarlega verður fjallað um heimilið í Sjónvarpi Víkurfrétta næsta fimmtudagskvöld í sérstökum þætti um Nesvelli.

Meðfylgjandi myndir voru teknar við vígslu hjúkrunarheimilis að Nesvöllum í dag. VF-myndir: Páll Ketilsson






















 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024