Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Nýtt fréttablað í Hafnarfirði eftir viku
Fimmtudagur 24. október 2002 kl. 10:20

Nýtt fréttablað í Hafnarfirði eftir viku

Víkurfréttir ehf. munu hefja útgáfu á nýju fréttablaði í Hafnarfirði nk. fimmtudag, 31. október. Blaðið mun heita VF og hafa undirtitilinn VIKULEGA Í FIRÐINUM. Nú þegar hafa verið ráðnir starfsmenn úr Hafnarfirði sem munu vinna við blaðið, sem verður til húsa að Bæjarhrauni 22 í Hafnarfirði. (2. hæð - sami inngangur og hjá Fasteignasölunni Höfða). Þar hefur verið opnuð skrifstofa með aðsetri auglýsingafólks og blaðamanna. Síminn hjá VF er 555 6111. Samhliða nýju vikublaði verður vefurinn www.vf.is stækkaður og sérstakur vefur með hafnfirskum fréttum opnaður þar. Á www.vf.is verður daglegur fréttaflutningur á sama hátt og frá Suðurnesjum.Í Morgunblaðinu í dag auglýsir útgefandi VF eftir blaðamanni/fréttastjóra á hið nýja blað. Leitað er að duglegum einstaklingi sem þarf að vera tilbúinn að leggja sig fram í krefjandi starfi, geta unnið sjálfstætt og undir álagi. Þá segir að það sé kostur ef viðkomandi býr í Hafnarfirði eða nágrenni. Umsækjandi þarf að geta hafið störf sem fyrst. Umsóknir sendist á netfangið [email protected]


VF - VIKULEGA Í FIRÐINUM mun koma út á fimmtudögum og verður blaðinu dreift inn á öll heimili og í fyrirtæki í Hafnarfirði með Íslandspósti. Blaðinu verður dreift á sama hátt í Garðabæ og í Bessastaðahreppi í 11.000 eintökum á markaðssvæði sem telur um 30.000 manns. Efni frá Garðabæ og af Álftanesi mun birtast á sérstökum fréttasíðum í blaðinu. Blaðið verður allt litprentað og vírbundið í tímaritsbroti. Efnistök VF verða fréttir, mannlíf og sport. Viðtöl, fréttir af menningarlífi og fólkinu í bænum verða áberandi í blaðinu, sem verður byggt upp á svipaðan hátt og Víkurfréttir, sem Suðurnesjamenn þekkja. Markmið útgefanda er að gera vandað og málefnalegt bæjarblað. Blaðinu er einnig ætlað að vera öflugur auglýsingamiðill fyrir verslanir og fyrirtæki á svæðinu.


Útgefandinn
Útgefandi blaðsins er Víkurfréttir ehf. Víkurfréttir komu fyrst út á Suðurnesjum í ágústmánuði 1980. Núverandi eigandi, Páll Ketilsson, keypti útgáfuna árið 1983 og stofnaði þá fyrirtækið Víkurfréttir ehf. Blaðið er borið inn á öll heimili á Suðurnesjum og er stærsti frétta- og auglýsingamiðill svæðisins.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024