Nyrsta sólúr í heimi
Sólúrið við Myllubakkaskóla verður vígt við hátíðlega athöfn nk. laugardag kl. 17. Það eru fyrrverandi nemendur úr Barnaskóla Keflavíkur/Myllubakkaskóla sem ætla að gefa Myllubakkaskóla sólúrið í tilefni 40 ára fermingarafmælis og mun það verða staðsett fyrir framan skólann.
Sólúrið var flutt í lögreglufylgd í fyrrakvöld enda engin smásmíði, tæp 13 tonn að þyngd. Þessi minnisvarði var unnin í samvinnu við Einingaverksmiðjuna ehf. og St. helgason, steinsmiðju.
„Sólúrið er minnisvarði og tákn um sameiginlegt ferðalag okkar í gegnum skólann á árunum 1957-62 og tileinkað minningu Vilhjálms Ketilssonar, skólastjóra við Myllubakkaskóla, og annarra félaga okkar úr árganginum sem kvatt hafa okkur.
Sólúr/sólklukkur eru ævaforn fyrirbæri og eru vitnisburður um vitund og skilning mannsins á lögmálum náttúrunnar og einnig þörf hans til að henda reiður á framrás tímans, segir Tómas Jónsson sem hefur verið ásamt fleirum í forsvari árgangsins 1950, sem heldur upp á 40 ára fermingarafmæli sama kvöld og sólúrið verður vígt.
Tómas segir að það sem sé óvenjulegt við þetta sólúr sé að það „kviknar“ aðeins á því - þ.e.a.s. það sýnir aðeins tímann að manninum viðstöddum. Það er enginn stöng eða staur sem varpar skugga á skífuna heldur verður maðurinn sjálfur að standa á miðri skífunni og þannig er það skuggi hans sjálfs sem lendir á skífunni og vísar á klukkustund dagsins. Það er því gjörningur af bestu gerð í hvert sinn sem hún er notuð.
Að sögn Tómasar var samband haft við Modern Sunclocks í Skotlandi, fyrirtæki sem hefur sérhæft sig í að reikna út og grunnteikna sólskífur út frá lengdar- og breiddargráðum á jörðinni og fullyrðir fyrirtækið að þetta yrði nyrsta sólúr jarðarinnar og það eina sinnar gerðar á Íslandi. Það er auðvitað skemmtileg staðreynd fyrir samfélagið.
Óneitanlega er framkvæmdin töluvert flókið og dýrt fyrirtæki og var því óhjákvæmilegt að leita eftir fjárstuðningi. Fjársöfnun hefur gengið vel en þeir sem vilja leggja árganginum lið við þessa framkvæmd og leggja hönd á plóginn er vinsamlegast bent á söfnunarreikning í Sparisjóðnum í Njarðvík:
1191-05-401060 / kt.: 030550-3159 / Árgangur 1950.