Nýr tónn sleginn á atvinnumálafundi í Garði
Vel á annað hundrað manns sóttu að margra mati vel heppnaðan atvinnumálafund á Garðskaga í gærkvöldi. Bæjarstjórn Garðs stóð fyrir fundinum en frummælendur voru Kristján Möller alþingismaður og formaður atvinnuveganefndar og Oddný G. Harðardóttir alþingismaður Suðurkjördæmis, en Oddný býr í Garði.
Nýr tónn var sleginn á fundinum í samstarfi manna um að koma atvinnulífinu á Suðurnesjum í gang sem fyrst. Á fundinum voru menn hvattir til að hætta að líta í baksýnisspegilinn og sýna frekar fólki á Suðurnesjum að þeim sem fara með málaflokkinn sé treystandi til að leiða málið í örugga höfn sem fyrst.
Kristján Möller fjallaði helst um stóriðjuna á Suðurnesjum í erindi sínu í gær á meðan Oddný fjallaði um menntun og smærri atvinnugreinar.
Suðurnesjamenn voru hvattir til samstöðu á fundinum í gær og til að ýta á eftir málum af sameininlegum þunga.
Fram kom að enn er bið eftir gerðardómi frá Svíþjóð sem ákvarða mun í orkusölumálum milli HS Orku og Norðuráls í Helguvík. Þar er í gegnum mikið pappírsflóð að fara en gerðardómurinn hefur fengið yfir 7000 blaðsíður af gögnum til að fara yfir í málinu.
Það kom einnig fram að Norðurál er tilbúið með alla þætti framkvæmdarinnar og um leið og skrifað hefur verið undir samninga um orkukaup, hvort sem það er við HS Orku eða Landsvirkjun, þá verður gefin út tilkynning um að farið verði á fulla ferð með verkefnið sem mun skapa 1500 - 2000 manns atvinnu.
Nánari fréttir af atvinnumálafundinum á eftir. Meðal annars framsaga Kristjáns Möller í myndbandi frá fundinum og einnig myndbrot frá svörum við fyrirspurnum.
Myndir: Hilmar Bragi Bárðarson