Nýr organisti til Njarðvíkurkirkju
Þann 1. desember 2001 réð sóknarnefnd Ytri-Njarðvíkursóknar Natalíu Chow sem organista við Ytri-Njarðvíkurkirkju. Verksvið organista er að bera ábyrgð á og stýra tónlistarmálum safnaðarins í umboði sóknarnefndar og hafa umsjón með og sjá um þjálfun kirkjukórsins. Fram til 1. september sl. starfaði Natalía jafnframt sem organisti við Hafnarfjarðarkirkju en þar sem störfum hennar er lokið þar mun hún að fullu koma inn í starf Ytri-Njarðvíkursóknar. Til að efla söngstarfið og vera organista til aðstoðar var í upphafi þessa árs skipuð tónlistarnefnd, en formaður nefndarinnar er Árni Brynjólfur Hjaltason og frá systrafélagi kirkjunnar situr Ólafía Friðriksdóttir. Nefndinni til ráðgjafar er skólastjóri Tónlistarskóla Reykjanesbæjar, Haraldur Árni Haraldsson en stefnt er að miklu samstarfi við tónlistarskólann.Það er mikill fengur fyrir Ytri-Njarðvíkursókn sem telur um 2500 manns að fá svo mikilhæfan tónlistarmann sem Natalíu til starfa við söfnuðinn, en hún hefur lokið BA-prófi í tónmennt og einsöngvaraprófi frá Háskóla í Hong Kong. Framhaldsnám stundaði Natalía í Bretlandi og lauk MA-námi í tónlist. Á Íslandi hefur Natalía lokið Kantorsprófi og 8. stigi í orgelleik.
Æfingar hjá kór Ytri-Njarðvíkurkirkju verða á þriðjudagskvöldum og hefjast kl. 20;00. Áhugasömu söngfólki er bent á að hafa samband við Natalíu í síma 555-1346 og 699-4613, Árna í síma 421-7223 og Ólafíu í síma 421-1208.
Æfingar hjá kór Ytri-Njarðvíkurkirkju verða á þriðjudagskvöldum og hefjast kl. 20;00. Áhugasömu söngfólki er bent á að hafa samband við Natalíu í síma 555-1346 og 699-4613, Árna í síma 421-7223 og Ólafíu í síma 421-1208.