Nýr meirihluti í Vogum
Nýr meirihluti hefur verið myndaður í bæjarstjórn Voga af E og H-lista. Saman verða þessir listar með sex bæjarfulltrúa af sjö en L-listinn verður með einn fulltrúa. Samhliða samkomulagi um meirihlutamyndun hafa öll framboðin gert með sér samstarfsyfirlýsingu. Forseti bæjarstjórnar verður Inga Sigrún Atladóttir frá H-lista og formaður bæjarráðs verður Hörður Harðarson, E-lista.
„Eftir viðræður undanfarna daga hafa E og H listi komist að samkomulagi um að starfa saman í meirihluta á næsta kjörtímabili. Við teljum að samstarf sem flestra sveitarstjórnarmanna verði farsælast fyrir sveitarfélagið og munum við vinna að því að svo megi verða. Aðilar sem koma að samkomulaginu hafa skuldbundið sig til að vinna að heilindum fyrir sveitarfélagið og leitast við að viðhalda því trausti sem nauðsynlegt er í samstarfi bæjarfulltrúa.
Við stefnum að því að ná hallalausum rekstri á kjörtímabilinu. Við viljum blása til sóknar í atvinnumálum með það að markmiði að byggja upp fleiri atvinnutækifæri innan sveitarfélagsins. Sveitarfélagið hefur árum saman unnið að því að vera barn- og fjölskylduvænt samfélag og viljum við halda áfram á sömu braut og gera gott samfélag enn betra. Því munum við ná með því að styrkja þjónustu og auka félagstarf allra aldurshópa.
Samkomulag hefur náðst um að ráða óháðan bæjarstjóra sveitarfélagsins. Gengið hefur verið frá skiptingu í embætti,“ segir í yfirlýsingu sem öll framboðin hafa samþykkt.