Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Nýr meirihluti í Garði óháð því hvort Kolfinna hættir
Frá bæjarstjórnarfundi í Garði á þessu ári. Þriðji meirihlutinn á þessu ári tekur við á fundi í kvöld. VF-mynd: Hilmar Bragi Bárðarson
Mánudagur 17. desember 2012 kl. 06:45

Nýr meirihluti í Garði óháð því hvort Kolfinna hættir

Nýr meirihluti hefði orðið í Garði hvort sem Kolfinna S. Magnúsdóttir hefði hætt í bæjarstjórn Garðs eða ekki. Kolfinna tilkynnti á laugardag að hún óskaði eftir því að hætta í bæjarstjórn Garðs til að geta barist fyrir réttindum fatlaðrar dóttur sinnar.

Bæjarfulltrúar D-listans í Garði og bæjarfulltrúi L-listans hafa verið að ræða saman um myndun nýs meirihluta undanfarnar tvær vikur. Þær viðræður leiddu til þess að óskað var eftir því að boðað yrði til bæjarstjórnarfundar í Garði síðdegis í dag. Þar verður nýr meirihluti kynntur og kosið verður í stöður forseta bæjarstjórnar, formann bæjarráðs og nokkur önnur embætti og nefndir.

D-listinn í Garði hafði þrjá menn í bæjarstjórn eftir að D-listakonan Kolfinna S. Magnúsdóttir hætti stuðningi við þáverandi meirihluta D-lista og hóf meirihlutasamstarf með tveimur bæjarfulltrúum N-lista og einum fulltrúa L-lista.

Með því að Kolfinna hættir í bæjarstjórn fær D-listinn aftur hreinan meirihluta þar sem varamaður Kolfinnu er D-listamaðurinn Einar Tryggvason. Þegar viðræður bæjarfulltrúa D-listans við L-listamanninn Davíð Ásgeirsson hófust var ekki ljóst að Kolfinna væri á förum. Nýr meirihluti í Garði fær því sinn fimmta mann á fundinum í kvöld þegar Einar Tryggvason mætir þar sem varamaður Kolfinnu en hún óskaði lausnar frá og með 1. janúar nk.

Hefði Kolfinna kosið að sitja áfram væri hún komin í minnihluta með N-listanum, þar sem L-listamaðurinn hættir stuðningi við núverandi meirihluta N-lista, L-lista og Kolfinnu S. Magnúsdóttur af D-lista. Nýi meirihlutinn er því óháður því hvort Kolfinna hættir eða ekki.

Eftir bæjarstjórnarfundinn í kvöld ætti því að vera kominn nokkuð styrkur meirihluti í Garði með fullskipuðum D-lista og stuðningi frá bæjarfulltrúa L-listans. Líkurnar á því að nýr meirihluti falli ætti því að vera hverfandi.

Leiða má að því líkur að Magnús Stefánsson verði áfram bæjarstjóri í Garði. Hann var ráðinn snemma í sumar til starfsins eftir að meirihlutinn sem varð til í vor sagði Ásmundi Friðrikssyni upp starfi bæjarstjóra. Í síðustu viku var gengið frá starfslokasamningi við Ásmund. Hann sagðist í samtali við Víkurfréttir nú um helgina ekki vera að setjast að nýju í bæjarstjórastólinn í Garði. Hann væri að vinna í öðrum málum, en Ásmundur gefur kost á sér í forystusveit Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi fyrir næstu alþingiskosningar.
 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024