Nýr meirihluti hafnar mengandi stóriðju

Samfylkingin, Framsóknarflokkurinn og Bein leið hafa myndað nýjan meirihluta í Reykjanesbæ. Nýr meirihluti mun taka við á bæjarstjórnarfundi þann 19. júní nk.  Helstu áhersluatriði nýs meirihluta eru að áfram verður unnið skv. þeirri aðlögunaráætlun sem í gildi er og lögbundnu skuldaviðmiði náð fyrir árið 2022. Skattheimtu verði stillt í hóf og áfram verði unnið að því að bæta og opna stjórnsýslu sem verður endurskoðuð á kjörtímabilinu.

Þrjár nýjar nefndir verða settar á laggirnar, lýðheilsunefnd, framtíðarnefnd og markaðs-, atvinnu- og ferðamálanefnd. Þá verður auknum fjármunum varið í fræðslumál til þess að bæta aðbúnað og aðstöðu bæði í leik- og grunnskólum.

Nýr meirihluti hafnar mengandi stóriðju í Helguvík og mun nýtt Framtíðarráð fjalla um starfsemina og leita lausna svo tryggja megi að atvinnuuppbygging í Reykjanesbæ sé ávallt í sátt við íbúa. Unnið verði áfram að atvinnuuppbyggingu í Helguvík með það að leiðarljósi að nýta hafnarmannvirki og efla enn frekar kjarnastarfsemi Reykjaneshafnar. 

Kjartan Már Kjartansson, núverandi bæjarstjóri, verður endurráðinn. Friðjón Einarsson frá Samfylkingu verður formaður bæjarráðs og Jóhann Friðrik Friðriksson, Framsóknarflokki,  tekur við sem forseti bæjarstjórnar fyrstu tvö ár kjörtímabilsins en Guðbrandur Einarsson, Beinni leið, verður forseti bæjarstjórnar seinni tvö árin.