Nýr leikskóli í Suðurnesjabæ tekinn til starfa
Nýr leikskóli í Suðurnesjabæ, Grænaborg, hefur formlega hafið starfsemi sína og fóru fyrstu börnin að streyma inn í skólann síðastliðinn fimmtudag. Aðlögun yngstu barna hófst á föstudag og hafa foreldrar og börn fengið að kynnast skólanum, húsnæðinu og starfsfólki á sínum forsendum. Stuðst er við þátttökuaðlögun þar sem foreldrar taka virkan þátt í aðlögunarferlinu. Þetta kemur fram á vef bæjarfélagsins.
Á öðrum og þriðja degi aðlögunar var boðið upp á stutta fyrirlestra fyrir foreldra barna sem voru í aðlögun. Það voru þær Hjördís Hafsteinsdóttir talmeinafræðingur og Herdís Hallsdóttir sálfræðingur sem fjölluðu annars vegar um málþroska ungra barna og hins vegar um uppeldi barna og mikilvægi þess að vera góðar fyrirmyndir.
„Við horfum full tilhlökkunar til haustsins og nú styttist í að nýr leikskólastjóri, Arnbjörg Elsa Hannesdóttir, hefji störf. Við bíðum þess að fá að njóta útisvæðisins eins vel og við njótum þess að vera í þessu fallega húsnæði. Þangað til eru börnin að nýta móann sem er allt í kringum skólann og stéttar og palla sem eru upp við hús. Haustið lofar sannarlega góðu fyrir börn, starfsfólk og foreldra Grænuborgar,“ segir í pistli á vef Suðurnesjabæjar.
Hér má sjá myndir úr leikskólanum.