Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Miðvikudagur 10. maí 2000 kl. 16:12

Nýr leikskóli í Grindavík

Fyrsta skóflustungan að nýjum leikskóla, við Krók í Grindavík, var tekinn sl. þriðjudag. Um 20 leikskólabörn tóku fyrstu skóflustunguna að nýja húsinu sínu. Með byggingu skólans verður hægt að taka á móti öllum börnum í Grindavík á aldrinum 2-6 ára, og jafnvel allt niður í 18 mánaða en brýn þörf var orðin á fleiri leikskólaplássum vegna hraðrar uppbyggingar í bænum. Þessi framkvæmd er stórt framfaraskref fyrir bæjarfélagið og á vafalaust eftir að hafa mikið að segja um framtíðaruppbyggingu á svæðinu. Fyrirtækið Ístak byggir húsið eftir teikningum Ormars Thors Guðmundssonar arkitekts, en fyrirtækið Nýsir er eigandi hússins og gerir um það þjónustusamning við Grindavíkurbæ. Samningurinn felur í sér leigu á húsinu með fullbúinni lóð og tækjum til 24 ára en hann hljóðar upp á 23 millj. kr. á ári. Húsið á að vera tilbúið 1. janúar 2001. Leikskólinn er byggður samkvæmt einkaframkvæmd, sem er nýjung í framkvæmdum á vegum sveitarfélaga. „Þetta er í fyrsta sinn sem leikskóli er boðinn út í alútboði og okkar útreikningar sýna að hagkvæmara sé að vinna þetta með þessu móti, en ef sveitarfélagið hefði byggt húsið sjálft og rekið það“, segir Einar Lárusson, bæjarstjóri Grindavíkurbæjar. Skólinn mun verða fjögurra deilda leikskóli og mun væntanlega rúma um 110-120 börn, en fjöldi þeirra fer eftir skiptingu heilsdags- og hálfsdagsplássa. „Leikskólastarfið hefur ekki verið útfært, en við höfum áhuga á að skoða með opnum huga allar nýjungar og möguleika sem tengjast skólahaldinu sjálfu með hagsmuni barnanna að leiðarljósi“, segir Einar og bætir við að einnig standi til að gera endurbætur á gamla leikskólanum og búa hann í takt við tímann.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024