Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Þriðjudagur 20. júní 2000 kl. 09:15

Nýr körfubíll til Keflavíkur

Slökkvilið Brunavarna Suðurnesja fékk Nummela Skylift 22-3 körfubíl, afhentan við hátíðlega athöfn á 17. júní.Bifreiðin er af gerðinni Volvo F-7, en hún hefur verið í eigu slökkviliðsins í Lindesberg í Svíþjóð frá árinu 1981. Hún er vel útbúin til slökkvi- og björgunarstarfa, m.a. með 22 metra háan lyftubúnað til björgunar fólki úr mannvirkjum, vatnsbyssu í körfu, rafstöð og öflugri vinnulýsingu úr körfu. Fyrirtækið sem framleiðir körfubílana er finnskt og heitir Bronto Skylift AB, en umboðsaðili þess á Íslandi er Gústaf Skúlason. Það er stærsta fyrirtækið í heiminum sem framleiðir körfubíla til brunavarna. Tækniráðgjafi á vegum Bronto Skylift, Bengt Backman, kom til Keflavíkur og kenndi mannskapnum á bílinn. Fyrirtækið hefur selt þrjá aðra slökkviliðsbíla til landsins, þar af tvo nýja til höfuðborgarsvæðisins og einn notaðan til Akureyrar. Að sögn Sigmundar Eyþórssonar, slökkviliðsstjóra, er koma körfubílsins til Keflavíkur stórt framfaraskref fyrir liðið. „Við höfum reyndar haft aðgang að körfubíl hjá slökkviliðinu á Keflavíkurflugvelli um samstarfssamning, en nú gefst okkur tækifæri á að móta hóp sem vinnur við slökkviliðs- og björgunarstörf, þar sem miðað er við notkun á þessum körfubíl“, segir Sigmundur. Nýi bíllinn nýtist til mun fleiri starfa, að sögn Sigmundar, en björgunar á fólki, t.d. við reyklosun, til árásar á elda í háum byggingum, almennra björgunarstarfa við erfiðar aðstæður og auk þess kemur bíllinn með mikinn búnað á slysavettvang. „Bíllinn eykur öryggi íbúa og ég tel að þetta að hann styrki slökkviliðið til muna“, segir Sigmundur og er hinn ánægðasti. Verð körfubílsins eru 4,5 millj. kr. en áætlað verð á samskonar nýjum bíl er um 30 millj. kr. „Þetta er góður og gamall bíll, sem hentar B.S. mjög vel til að byrja með, en algengt er að þessir bílar séu í notkun hjá slökkviliðum á Norðurlöndum í allt að 30 ár“, segir Sigmundur. Kaupin eru liður í þriggja ára fjárfestingaáætlun í endurnýjun á tækjum og búnaði Brunavarna Suðurnesja. Á þeirri áætlun er nýr björgunar- og slökkviliðsbíll, en hann á að vera kominn til Keflavíkur í nóvember á þessu ári. Nýr slökkviliðsbíll (dælubíll), mun síðan koma fullbúinn til liðsins í ágúst 2001.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024