Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Mánudagur 3. nóvember 2003 kl. 10:51

Nýr heilsuleikskóli í Grindavík

Þriðjudaginn 4. nóvember nk. tekur leikskólinn Krókur í Grindavík formlega til starfa sem heilsuleikskóli. Verður hann opnaður með sérstakri dagskrá kl. 15.00 að viðstöddum heilbrigðisráðherra, Jóni Kristjánssyni.  Leikskólum sem fylgja hugmyndafræði heilsueflandi skóla fer fjölgandi og nú bætist leikskólinn Krókur í hópinn. Landlælknisembættið hefur veitt leikskólanum ráðgjöf og aðstoð við að endurskipuleggja starfsemi sína á grundvelli þeirrar hugmyndafræði.Mikilvægt er að leikskólar sinni því verkefni að efla heilsu og vellíðan barnanna í samstarfi við foreldra. Ekki er síst mikilvægt að leggja áherslu á hollan mat og næga hreyfingu í ljósi þess að íslensk börn eru að þyngjast.

Heilsuefling í skólum, sem hefur verið samstarfsverkefni Menntamála-ráðuneytis, Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis og Landlæknis-embættisins frá árinu 1999, lauk formlega sem þróunarverkefni í árslok 2002. Á ráðstefnu sem haldin var í desember sama ár var ákveðið að halda áfram að fá skóla á öllum skólastigum til að vinna eftir hugmyndafræði um heilsueflandi skóla.

Síðan þá hafa margir skólar, á ýmsum skólastigum, leitað til Landlæknisembættisins til að fá ráðgjöf og aðstoð við að byggja upp stefnu og starf sem miðar að því að skólinn verði heilsueflandi skóli. Einnig hefur Heilsuleikskólinn Urðarhóll, sem var fyrsti heilsuleikskólinn hér á landi (opnaði árið 1996) og tók virkan þátt í þróunarverkefninu, unnið kappsamlega að því að breiða út hugmyndafræði heilsuleikskóla, meðal annars með námskeiðum og fyrirlestrahaldi.

Leikskólinn Krókur í Grindavík hefur nú byggt upp sína starfsemi þannig að hún uppfylli viðmið heilsuleikskóla. Í leikskólanum er lögð áhersla á hollt og gott mataræði og hreyfingu í leik undir faglegri umsjá. Heilsubók barnsins, sem var þróuð að Heilsuleikskólanum Urðahóli, er notuð í skólastarfinu til að meta á markvissan hátt þroska og hreysti barnanna. Þeim börnum sem þess þurfa er boðið upp á sjúkraþjálfun í skólanum og góð samvinna er við heilsugæsluna meðal annars með því að framkvæma þroskamat í skólanum. Einnig er skólinn í góðu samstarfi við bæjarfélagið og fyrirtækin þar, til að börnin fái tækifæri til að kynnast bænum sínum betur. Reglulegt samstarf er einnig við hjúkrunarheimilið Víðihlíð til að tengja saman kynslóðir. Starfsfólk leikskólann hefur sinnt eigin heilsueflingu til að vera betri fyrirmynd fyrir börn og foreldra. Við hönnun skólans og lóðarinnar var hugað að örvun sálar og líkama og umhverfið býður upp á íslenska náttúru með fjöllum, hrauni og fjörulífi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024