Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Nýr Hannes úr leik eftir að kælirör sprakk
Þriðjudagur 2. maí 2023 kl. 09:59

Nýr Hannes úr leik eftir að kælirör sprakk

Óhapp varð á æfingu hjá björgunarskipinu Hannesi Þ. Hafstein um helgina þegar kælivatnsrör fyrir aðra aðalvél skipsins sprakk, með þeim afleiðingum að vélarrúmið fylltist af gufu, sem í kjölfarið virkjaði brunakerfi skipsins.

Áhöfnin brást við samkvæmt fyrirfram ákveðnu verklagi, drepið var á báðum vélum og öllum rýmum lokað. Þegar ljóst var að enginn eldur var um borð var vélarrúmið reykræst. Þá kom ástæðan í ljós, sprungið kælivatnsrör.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ljóst var að ekki væri hægt að nota þá vél, en hin vélin var gangsett og siglt fyrir því vélarafli til hafnar í Sandgerði.

Til öryggis var björgunarskipið Odduv V Gíslason kallað út frá Grindavík, en ekki reyndist þörf á aðstoð þess.

Hannes kom svo til hafnar um hálftíma síðar.

Hannes Þ. Hafstein hét fyrir stuttu Sigurvin, og var staðsettur á Siglufirði, en þegar nýtt björgunarskip, það annað af þremur sem samið hefur verið um smíði á, var afhent, fékk björgunarsveitin í Sandgerði þetta skip til notkunar. Það björgunarskip sem var í Sandgerði hafði verið selt, og var ekkert björgunarskip í Sandgerði um hríð.

Unnið hefur verið að því að standsetja skipið og gera það klárt fyrir strandveiðitímabilið sem hófst 1. maí.

Ekki er ljóst á þessari stundu hversu mikil og kostnaðarsöm viðgerðin á Hannesi verður, en þó ljóst að ekkert björgunarskip verður til taks í Sandgerði á næstunni, og viðbragð því skert á Suðurnesjum.

Hannes Þ. Hafstein var smíðaður árið 1988 og því kominn nokkuð til ára sinna, líkt og flest önnur björgunarskip Slysavarnafélagsins Landsbjargar utan þeirra tveggja nýju skipa sem tekin hafa verið í notkun.

Stóru átaki við að endurnýja öll 13 skip félagsins, um allt land, hefur verið hrint af stað. Samið hefur verið um smíði þriggja skipa, og búið er að afhenda tvö, en það þriðja verður afhent í haust.

Þetta atvik sýnir svo ekki verður um villst, þá brýnu nauðsyn að endurnýja björgunarskipaflotann, jafnvel hraðar en áætlað hafði verið. Talsvert vantar enn upp á að Slysavarnafélagið Landsbjörg hafi fullfjármagnað endurnýjun allra skipanna, en um tvo milljarða vantar upp á að klára verkefnið.