Nýr gönguleiðabæklingur kominn út
Ferðamálasamtök Suðurnesja hafa gefið út nýjan gönguleiðabækling um Árnastíg og Skipsstíg, hvorutveggja gamlar þjóðleiðir á milli Grindavíkur og Njarðvíkur. Af því tilefni voru bæjarstjóra Grindavíkur afhent fyrstu eintökin af bæklingnum í morgun en hann mun verða til sölu á upplýsingamiðstöðvunum í Krossmóa og í Saltfisksetrinu í Grindavík.
Aldur þessara stíga er óljós. Upphaf Árnastígs er við Húsatóftir í Staðarhverfi og Skipsstígs við gatnamót Nesvegar og Bláalónsvegar ofan Járngerðarstaðarhverfis í Grindavík. Leiðirnar koma saman ofan við Rauðamel og enda við Fitjar í Njarðvík. Þær hafa verið stikaðar.
Þjóðsagan segir að Skipsstígur hafi orðið til vegna þess að Junkarar, sem voru þýskir fiskimenn, hafi farið stíginn með báta sína mili verstöða í Njarðvík og Grindavík. Örnefnin Junkaragerði í Grindavík og í Höfnum þykja renna stoðum undir þetta. Fór það eftir veðri hverju sinni hvaðan þeir réru. Önnur tilgáta segir að stígurinn dragi nafn sitt af því að menn gengu hann mili heimilis og skips á tímum árabátaútgerðar.
Þá segir sagan að Hallgrímur Pétursson, sem bjó á Bolafæti í Njarðvík ,hafa sótt vertíðir til Grindavíkur og gengið Skipsstíginn kvölds og morgna þegar ástin var hvað heitust milli hans og Guðríðar.
Feðamálasamtök Suðurnesja stefna að því að gefa út alls 10 gönguleiðabæklinga um Reykjanesskaga en áður hafa verið gefnir út bæklingar um Garðsstíg og Sandgerðisveg.
Bæklingarnir eru gefnir út í tengslum við verkefnið AF STAÐ á Reykjanesið. Undir því merki var gefið út veglegt gönguleiðakort fyrir nokkrum árum sem hefur verið það vinsælt að nú er það uppselt. Verið er að betrumbæta kortið fyrir næstu prentun sem verður fáanleg fljótlega.
----
VFmynd/elg – Kristján Pálsson og Óskar Sævarsson hjá Ferðamálasamtökum Suðurnesja afhentu Ólafi Erni Ólafssyni, bæjarstjóra í Grindavík, fyrstu eintökin af gönguleiðabæklingnum í morgun.