Nýr diskur frá Hljómum
Hinir síungu Hljómar hafa gefið út nýjan disk, samnefndan hljómsveitinni. Ekkert lát hefur verið á vinsældum þessarar ástsælustu hljómsveitar landsins og hafa þeir fylgt útgáfunni eftir með fjölmörgum velheppnuðum tónleikum um allt land.
Diskurinn inniheldur lög eftir Gunnar Þórðarson við ljóð eftir nokkra vel valin skáld, til dæmis Guðmund Andra Thorsson, Einar Má Guðmundsson, Þorstein Eggertsson o.fl. Sum laganna eru þegar farin að heyrast á öldum ljósvakans eins og Upp með húmorinn, Eitt lítið stef og Geggjuð ást.
Rúnar Júlíusson sagði í samtali við Víkurfréttir að vinna við diskinn hefði staðið frá því í vor og hann væri ánægður með útkomuna. „Þarna eru 12 lög sem eru í anda Hljóma þannig að hlutendur ættu að vita að hverju þeir ganga.“
Framundan er meiri spilamennska þar sem tónleika með Beach Boys ber hæst. „Þeir voru einir af stærstu áhrifavöldum okkar þegar við vorum að byrja og við hlökkum mikið til tónleikanna,“ sagði Rúnar og bætti því við að það skipti hann engu mali þótt margir af upprunalegu meðlimunum væru ekki með í þetta skiptið.
Diskurinn, sem kom út á laugardag undir merkjum Sonet útgáfunnar, virðist svo sannarlega hafa hitt í mark og Hljómar og keflvíska bítlið virðast ekkert vera að gefa eftir í vinsældum.