Fréttir

  • Nýr björgunarbíll í Reykjanesbæ
    Mercedes-Benz Vito Björgunarsveitarinnar Suðurnes.
  • Nýr björgunarbíll í Reykjanesbæ
Miðvikudagur 27. ágúst 2014 kl. 09:51

Nýr björgunarbíll í Reykjanesbæ

– Björgunarsveitin Suðurnes endurnýjar Stapa 3

Það var stór stund hjá Björgunarsveitinni Suðurnes í gær en þá fékk sveitin afhentan ríkulega búinn Mercedes-Benz Vito áhafnarbíl.

Björgunarsveitin Suðurnes leitaði til K. Steinarssonar, sem er umboðsaðili Öskju á Suðurnesjum, með kaup á bílnum. Nýja björgunarsveitarbifreiðin er bæði sjálfskipt og fjórhjóladrifin. Hún er útbúin til forgangsaksturs og hlaðin aukabúnaði.

Mercedes-Benz Vito mun leysa af hólmi VW Transporter sem sveitin hefur notað mikið síðustu ár. Bifreiðin mun vera sú fyrsta sinnar tegundar sem útbúin er fyrir björgunarsveit. Bifreiðin er átta manna og með þægilegum sætum þannig að vel fer um mannskapinn í lengri eða styttri ferðum.

Bifreiðin hentar vel í verkefnum í byggð sem og á léttari slóðum. Bíllinn verður notaður til að flytja leitarflokka og leitarhund björgunarsveitarinnar.

Í bílnum er allur nauðsynlegur fjarskipabúnaður og staðsetningartæki, auk þess sem í bílnum er öflug spjaldtölva með kortakerfi. Á bílnum er einnig öflugur ljósabúnaður með forgangs- og vinnuljósum. Þá er kerfi í bílnum sem m.a. býður upp á 220V rafmagn.

Það var Jón Trausti Ólafsson, framkvæmdastjóri Öskju, sem afhenti Björgunarsveitinni Suðurnes nýja bílinn í gær en það kom í hlut Brynjars Ásmundssonar, gjaldkera sveitarinnar, að veita bílnum viðtöku. Bifreiðin verður þegar tekin í þjónustu sveitarinnar en þó á enn eftir að auka við búnað í bílnum. M.a. verða útbúnar í hann sérstakar festingar fyrir þannig að mögulegt sé að nota bílinn í sjúkraflutninga.

Nýi bíllinn hefur kallmerkið „Stapi 3“ hjá Björgunarsveitinni Suðurnes en fyrir á sveitin Stapa 5 sem er er Ford Econoline á 35" dekkjum og árgerð 2009, Stapa 10, Ford 550 með krókheysi og stórslysagám, árg 2006, og Stapa 2, sem er breyttur Ford Econoline á 44" dekkjum, 15 manna, árgerð 1998. Þá á sveitin gamlan Volvo vörubíl, árgerð 1985.



Frá afhendingu á Stapa 3 í gær. Á myndinni eru Agnar Hlynur Daníelsson sölustjóri Mercedes-Benz hjá Öskju, Bjarni Rúnar Rafnsson varaformaður Björgunarsveitarinnar Suðurnes, Jón Trausti Ólafsson framkvæmdastjóri Öskju, Kjartan Steinarsson framkvæmdastjóri K. Steinarssonar og Brynjar Ásmundsson gjaldkeri Björgunarsveitarinnar Suðurnes. VF-mynd: Hilmar Bragi Bárðarson

 

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024