Nýjar vatnsrennibrautir og framkvæmdir við Sundmiðstöð Reykjanesbæjar
Nýlega skrifuðu Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri Reykjanesbæjar og Skúli J. Björnsson framkvæmdastjóri Sportís ehf. undir samning um hönnun og kaup á tveimur nýjum vatnsrennibrautum og stigahúsi við Sundmiðstöð Reykjanesbæjar. Rennibrautir frá Sportís urðu fyrir valinu að undangengnu útboði.
Rennibrautirnar verða með lýsingu, hærri brautin 74 metri að lengd í um 9 metra hæð. Styttir rennibrautin er 28 metrar og í um 4,5 metra hæð. Turninn verður lokaður og 10 metra hár. Hægt verður að stýra lýsingu og hljóði í brautunum til að auka upplifun gesta. Áætlað að nýjar rennibrautir verði teknar í notkun í lok september á þessu ári.
Í sumar verður farið í framkvæmdir við útisvæði Sundmiðstöðvar við Sunnubraut en þær fela í sér að svæðið vestan við útilaug verður brotið upp og nýtt pottasvæði verður komið fyrir þar. Nýja rennibrautin verður sett upp sunnan við sama svæði. Rennibrautin verður tvöföld og töluvert stærri en núverandi rennibraut og var horft til útlits og upplifunar þegar hún var valin. Uppgönguturn að rennibrautum verður lokaður og upphitaður. Framkvæmdinni verður skipt upp í tvo áfanga. Í fyrri áfanga verður rennibraut fjarlægð, steypt áhorfendasvæði brotin í burtu, byggðir upp tveir heitir pottar og einn kaldur pottur. Í áfanga tvö verður sett upp saunaklefi og vatnsgufa. Einnig nýir útiklefar fyrir karla og konur.
Framkvæmdir munu hefjast núna í júní og verktími er áætlaður fjórir mánuðir. Ekki er fyrirhuguð lokun á sundlauginni meðan á framkvæmdum stendur heldur er áætlað að loka af vinnusvæðið til að röskun á starfssemi Sundmiðstöðvarinnar verði eins lítil og mögulegt er, segir á vef Reykjanesbæjar.