Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Nýjar þjónustuíbúðir fyrir fatlaða afhentar í Sandgerði
Þjónustuíbúðirnar standa við Lækjarmót í Sandgerði. VF-myndir: Hilmar Bragi
Mánudagur 8. október 2018 kl. 18:21

Nýjar þjónustuíbúðir fyrir fatlaða afhentar í Sandgerði

Íbúðakjarni með fimm íbúðum fyrir fólk með fötlun og þjónusturými hefur verið byggður í Sandgerði. Húsnæðið er tilbúið til að taka á móti nýjum íbúum en fyrstu íbúarnir flytja inn í vikunni. Það eru Landssamtökin Þroskahjálp sem létu byggja íbúðakjarnann með stofnframlagi frá bæði sveitarfélaginu og Íbúðalánasjóði.
 
Landssamtökin Þroskahjálp og Sandgerðisbær undirrituðu snemma árs 2016 samkomulag um byggingu og rekstur íbúða fyrir fólk með fötlun að Lækjamótum 61 til 65 í Sandgerði. Um er að ræða íbúðakjarna með fimm íbúðum og þjónusturými en sólarhrings þjónusta verður í íbúðakjarnanum sem félagsþjónusta sameinaðs sveitarfélags Garðs og Sandgerðis og Sveitarfélagsins Voga annast.
 
Sameinað sveitarfélag Garðs og Sandgerðis greiðir 12 prósent stofnkostnaðar og ríkið 18 prósent. Húsbyggingasjóður Landssamtakanna Þroskahjálpar standa svo straum af því sem uppá vantaði. Bygging íbúðakjarnans kostaði um 140 milljónir króna. Samkvæmt reglum má Þroskahjálp ekki hagnast á rekstri húsnæðisins, heldur verða leigutekjur að standa undir rekstri og viðhaldi hússins. Þá greiða íbúar ekki meira en 25% af ráðstöfunartekjum sínum í húsaleigu.
 
Nánar verður fjallað um íbúðakjarnann í Víkurfréttum í vikunni og í Suðurnesjamagasíni á fimmtudagskvöld þar sem rætt verður við Guðrúnu Björgu Sigurðardóttur félagsmálastjóra sameinaðs sveitarfélags Garðs og Sandgerðis og Sveitarfélagsins Voga.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024