Nýjar rannsóknir sýna að Bláa lónið dregur úr öldrun húðarinnar
Nýjar niðurstöður rannsókna á virkum efnum í jarðsjó Bláa lónsins sýna að þau draga úr öldrun húðarinanr og styrka varnarlag hennar. Bláa lónið hefur í samstarfi við þýskan húðlækni og rannsóknarráðgjafa, prófessor Jean Krutman, unnið að þessum rannsóknum og voru niðurstöðurnar kynntar í morgun. Jean Krutman er kunnur á alþjóða vísu fyrir rannsóknir sýnar á öldrun húðarinnar og áhrifum umhverfis á hana.
Helstu atriðin í niðurstöðunum eru þau að efni sem eru einkennandi fyrir lónið vinna gegn öldrun húðarinnar og styrkja ysta varnarlag hennar. Um er að ræða Bláa lóns kísilinn og tvenns konar blágræna þörunga. Niðurstöðurnar gefa sterklega til kynna að Bláa lóns kísillinn hafi styrkjandi áhrif á varnarlag húðarinnar og stuðli að heilbrigði hennar. Einnig að þörungarnir vinni gegn öldrun húðarinnar. Svokallaðir BL þráðþörungur örva náttúrulega nýmyndun kollagen-trefjanna í húð manna en það er mikilvægur eiginleiki til að draga úr öldrunareinkennum.
Niðurstöðurnar staðfesta sérstöðu lónsins sem heilsulindar og eru taldar hafa mikla þýðingu fyrir framleiðslu og þróun á vörum Bláa lónsins í framtíðinni.
Mynd: Prófessor Jean Krutman kynnti athyglisverðar niðurstöður rannsókna sinna í morgun.
VF:mynd: elg