Nýjar leiðir fyrir atvinnulausa
Sjónum beint að 30 ára og yngri og 55 ára og eldri
Vinnumálastofnun á Suðurnesjum mun á næstunni bjóði atvinnulausum einstaklingum þátttöku í verkefni sem snýst um að hanna nýjar leiðir til að auka atvinnufærni tveggja markhópa, 30 ára og yngri og 55 ára og eldri. Í þessum tveimur hópum er atvinnuleysi hvað mest.
Um er að ræða stórt Evrópu verkefni sem kallað er Intergen en ráðgjafarfyrirtækið Skref fyrir skref, SFS, er þáttakandi í því. Sandgerðingurinn Hansína B. Einarsdóttir frá SFS sótti ráðstefnu á vegum Erasmus plus í Finnlandi í nóvember 2019 en þar kynnti hún niðurstöður úr verkefni frá Íslandi þar sem unnið var með þá hugmynd að nota þekkingu og reynslu tveggja hópa til þess að styrkja stöðu þeirra á vinnumarkaði. Eldri hópurinn aðstoðaði þá yngri, t.d. við atvinnuumsóknir, myndun tengslaneta og kosti og galla við nýsköpun. Yngri hópurinn miðlaði þekkingu sinni á starfrænu læsi, netnotkun, tungumálum og ræddi nýsköpunarhugmyndir.
Niðurstöður úr þessu verkefni sýndu að báðir þessir markhópar elfdust til muna í gegnum þessa vinnu og talsverður áhugi var á því þróa þessa samstarfsleið betur.
Uppbyggingarsjóður Suðurnesja veitti Skref fyrir skref, styrk árið 2019 til þess að vinna að þessu verkefni.
Þessi hugmynd, um að tengjast saman þessa 2 markhópa og þjálfa þá til samstarfs, þótti snjöll, enda sýndu rannsóknir að flest lönd í Evrópu eru að glíma við svipaðar aðstæður.
Verkefnið INTERGEN sprettur úr þessum jarðvegi og nú hefur fengist öflugur styrkur frá Evrópusambandinu til þess að þróa ennfrekar þessa aðferð og hanna alþjóðleg tæki og tól sem geta nýst þessum hópum til þess að styrkja stöðu þeirra á vinnumarkaði framtíðar.
Í gögnum frá Evrópusambandinu er bent á, að næstum 20% fullorðinna Evrópubúa eigi í erfiðleikum með grunnlestur, ritun, útreikninga og notkun stafrænna tækja í daglegu lífi. Talið er að skortur á þessum hæfileikum hafi bein tengsl við lífsgæði.
Að sögn Hansínu B. Einarsdóttur hefur þróun stafrænna tækja og gervigreind nú þegar veruleg áhrif á vinnumarkaði. Búist er við að þessi áhrif aukist umtalsvert á næstu 10 árum þar sem allt að 50% ófaglægðra starfa hverfa og tölvur taka við. Það eykur líkurnar á að fullorðið fólk með litla menntum og færni eigi erfitt með að fá aðgang að vinnumarkaðnum. Þetta er enn flóknara þegar menn skoða áhrif menningarlegrar mismununar, neikvæð viðhorf gagnvart aldri og við þetta bætast fjölþætt áhrif Covid-19.
„Megin markmiðið verkefnisins er að þróa og prófa nýjar leiðir fyrir atvinnulausa úr þessum hópum, þannig að þeir eigi greiðari aðgang að vinnumarkaði til framtíðar. Vinnumálastofnun tekur þátt í að prufukeyra verkefnið á Suðurnesjum. Þátttaka kostar ekki neitt. Við vonum að þetta tilraunaverkefni verði til þess fallið að draga úr atvinnuleysi á Suðurnesjum,“ segir Hildur Jakobína Gísladóttir, forstöðumaður VMST á Suðurnesjum.