Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Nýjar björgunarbifreiðar í Garðinn
Mánudagur 28. nóvember 2005 kl. 23:35

Nýjar björgunarbifreiðar í Garðinn

Björgunarsveitin Ægir í Garði er þessa dagana að taka í notkun tvo nýja björgunarbíla. Um er að ræða Mitsubishi Pajero og Volkswagen Transporter en báðir bílarnir eru keyptir hjá Heklu í Reykjanesbæ.

Pajero-jeppinn er mikið breyttur bíll á 38" dekkjum og með breyttum gírkassa, ásamt ýmsu öðru sem aðeins þekkist í alvöru fjallabílum. Í bílnum er allur helsti búnaður fyrir björgunartæki af þessari stærðargráðu. Pajero-jeppinn er sá fyrsti sinnar tegundar sem breytt er í björgunarbifreið hér á landi. Fjölmargir hafa þegar sýnt bílnum áhuga og án efa á Hekla eftir að breyta fleiri svona bílum í björgunartæki á næstu misserum.

Volkswagen Transporterinn er hins vegar 10 manna fjórhjóladrifsbíll, hugsaður til að flytja mannskap í útköll en einnig er fljótlegt að útbúa þann bíl til flutnings á slösuðum í sjúkrabörum.

Bílana má báða sjá hjá Heklu í Reykjanesbæ, en þeir verða formlega afhentir Björgunarsveitinni Ægi nú í vikunni.

Björgunarsveitin Ægir fagnar 70 ára afmæli á þessu ári. Æfmælisins verður hins vegar ekki minnst fyrr en á nýju ári, þar sem nú er unnið að miklum endurbótum á húsnæði sveitarinnar, Þorsteinsbúð, en þeim framkvæmdum á að vera lokið fyrir jól.

Afmælisins verður minnst með útgáfu á veglegu afmælisblaði, auk þess sem velunnurum sveitarinnar verður boðið til afmælisveislu í húsnæði sveitarinnar. Það verður tilkynnt nánar þegar nær dregur.

Myndin: Pajero-jeppi Björgunarsveitarinnar Ægis í Garði.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024