Nýja hringtorgið opnað í dag
Nú síðdegis var opnað nýtt hringtorg á gatnamótum Hafnargötu og Flugvallarvegar en framkvæmdir við það hafa staðið yfir undanfarnar vikur og hafa vegfarendur þurft að fara krókaleiðir til komast á milli bæjarhluta. Það heyrir nú sögunni til.
Það var Nesprýði sem annaðist gerð hringtorgsins en eigandi þess, Jón Olsen, á einmitt fimmtugsafmæli í dag og hafði hann á orði að það væri gaman fá heilt hringtorg í afmælisgjöf. Torgið verður þó ekki nefnt eftir afmælisbarninu, þó Jónstorg láti vel í eyrum, heldur mun það hljóta nafnið Reykjavíkurtorg. Er þetta fyrsta hringtorgið í röð þeirra sem sett verða upp á nýjum vegi sem liggja mun upp að Reykjanesbraut en þau verða öll nefnd eftir ýmsum Evrópuborgum. Reykjavíkurborg mun ætla að gefa tvær öndvegissúlur sem prýða munu hringtorgið í framtíðinni.
Myndir: Bílaumferð var hleypt á nýja hringtorgið nú síðdegis. VF-myndir: elg