Nýja gosið fimm til tíu sinnum stærra
Eldgosið í Meradölum virðist vera um það bil fimm til tíu sinnum stærra en eldgosið í Fagradalsfjalli í upphafi gossins árið 2021. Þetta kemur fram í stöðuskýrslu Samhæfingarstöðvar Almannavarna sem gefin var út ná á ellefta tímanum í kvöld.
Torveldari leið fyrir fólk að gosstöðvunum
Staðsetning gossins er góð með tilliti til innviða á Reykjanesi en töluvert erfiðara er fyrir fólk að ganga upp að gosinu. Leiðin er lengri, torveldari og mikil hækkun á leiðinni. Fjöldi fólks er farinn að streyma á svæðið og ljóst er að gera þarf ráðstafanir ef fólk er illa búið fyrir slíka göngu. Að auki er gasmengun töluverð og huga þarf að vindátt.
Glóð hefur myndast á mörgum stöðum í gamla hrauninu sem gerir það hættulegt að ganga á hrauninu.
Verið er að boða út aukinn fjölda björgunarsveitafólks frá nærliggjandi svæðum til að tryggja öryggi við gosstöðvarnar.
Lítil hætta á gasmengun í byggð
Norðlægri átt er spáð næsta sólarhringinn sem þýðir að lítil hætta verður á gasmengun í byggð en getur leitt til þess að gosmökkurinn leggist yfir gönguleiðir að gosinu. Veðurstofan vinnur að gerð spálíkans um gasdreifingu sem væntanleg er að kvöldi 3.ágúst. Gasmælar verða settir upp á svæðinu af Veðurstofunni 4. ágúst.