Nýir bæjarstjórar tilkynntir í næstu viku
Tilkynnt verður um nýja bæjarstjóra í Grindavík og Sandgerði í næstu viku. Þetta staðfesta þau Bryndís Gunnlaugsdóttir, forseti bæjarstjórnar í Grindavík og Ólafur Þór Ólafsson, forseti bæjarstjórnar í Sandgerði, í samtali við Víkurfréttir.
Samtals bárust nærri 100 umsóknir um bæjarstjórastólana tvo og því mikið verk að meta umsækjendur.
Sigurður Valur Ásbjarnarson, sem var bæjarstjóri í Sandgerði, er nýr bæjarstjóri Fjallabyggðar, sem er sameinað sveitarfélag Ólafsfjarðar og Siglufjarðar. Ólafur Örn Ólafsson, sem var bæjarstjóri í Grindavík er á meðal umsækjenda um bæjarstjórastöður á nokkrum stöðum á landinu. Hann sótti ekki um í Grindavík.
Mynd: Séð yfir Grindavík. Þar verður nýr bæjarstjóri ráðinn í næstu viku, eins og í Sandgerði.