Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Nýburalát á HSS: Deyfiefni var óblandað
Miðvikudagur 3. mars 2004 kl. 21:51

Nýburalát á HSS: Deyfiefni var óblandað

Fæðingarlæknirinn, sem annaðist fæðingu barns, sem lést skömmu eftir fæðingu á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja í haust, segir að sér hafi láðst að þynna deyfilyfið sem notað var við leghálsdeyfingu og því hafi meira magn verið notað en venja er til. Foreldrarnir eru ósáttir við ályktun setts landlæknis í málinu. RÚV greinir frá þessu.
Í skýrslu setts landlæknis, Jóns Hilmars Alfreðssonar, er það staðfest að hugsanlega megi rekja dauða barnsins til þess að of mikið magn af deyfilyfinu Marcain hafi verið notað þegar framkvæma átti leghálsdeyfingu, 50 millígrömm í stað 20 eins og verklagsreglur sjúkrahússins segja til um. Þar er einnig fjallað um aðra þætti sem þar gætu haft áhrif, t.d. að möguleiki sé á að lyfið hafi borist í barnið en ekki móðurina. Foreldrar barnsins undra sig á því að ekki voru gerðar athugasemdir við þrjú stungusár sem fundust á höfði þess, hvorki í skýrslu setts landlæknis né í krufningarskýrslu.
Í skýrslu setts landlæknis er fjallað um marga þá þætti sem foreldrarnir telja að hafi farið úrskeiðis, en þeir telja að ekki sé nægjanlega skýrt kveðið á um hvað olli dauða barnsins. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu Sjónvarps nú í kvöld þykir eðlilegt að landlæknir, eða í þessu tilviki settur landlæknir, álykti með nokkuð skýrum hætti hvort mistök hafi átt sér stað eður ei. Þá er það í hans verkahring að ákveða hvort áminna beri viðkomandi lækni eða jafnvel svipta hann starfsréttindum, en ekkert var fjallað um það í skýrslunni.
Kvensjúkdómalæknirinn sem tók á móti barninu og framkvæmdi leghálsdeyfinguna segir í samtali við fréttastofu Sjónvarps að sér hafi láðst að blanda lyfið, sem gerði það að verkum að of mikið magn var notað. Hann telur þó ekki að því hafi verið sprautað beint í barnið. Fæðingalæknirinn telur að stunguförin á höfði barnsins séu vegna rafskauta sem sett voru á hvirfil þess til að ná sem öruggustu hjartariti.
Samkvæmt upplýsingum frá Dögg Pálsdóttur, lögmanni foreldranna, munu þeir leita réttar síns á grundvelli laga um sjúklingatryggingar og í framhaldinu verði skoðað hvort til frekari aðgerða verði gripið. Foreldrarnir óskuðu eftir lögreglurannsókn og fer lögreglan í Keflavík með rannsókn málsins, en niðurstaða þeirrar rannsóknar liggur enn ekki fyrir. Vefur Ríkisútvarpsins greindi frá þessu.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024