Ný vegtenging Hafnavegar eykur umferðaröryggi
- bæta öryggi og fækkar tengingum inn á Reykjanesbraut
Vegagerðin fyrirhugar vegaframkvæmdir á Hafnavegi með nýrri tengingu við Reykjanesbraut. Til stendur að tengja Hafnaveg inn á Reykjanesbraut á nýjum stað, eða inn á hringtorg við Stekk, sem er um 400 m austan við núverandi vegamót Hafnavegar og Reykjanesbrautar.
Markmið framkvæmdarinnar er að auka umferðaröryggi vegfarenda sem leið eiga um Reykjanesbraut, með því að loka hættulegum T-gatnamótum og tengja nýjan vegkafla Hafnavegar inn á núverandi hringtorg á Reykjanesbraut, ásamt því að tryggja greiðari samgöngur á svæðinu og bæta tengingu við Hafnir.
Framkvæmdakaflinn er um 850 m langur og liggur allur innan lands Reykjanesbæjar. Vegagerðin telur að framkvæmdin hafi ekki í för með sér umtalsverð áhrif á umhverfið vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar. Framkvæmdum verður hagað þannig að neikvæð áhrif þeirra verði sem minnst, mótvægisaðgerðum verður beitt og haft samráð við ýmsa aðila.