Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ný upplifun í mat og drykk á Park Inn hótelinu
Félagarnir Jón Gunnar og Arnar Gauti vinna að miklum breytingum á veitingastað Park Inn hótelsins.
Föstudagur 13. október 2017 kl. 06:00

Ný upplifun í mat og drykk á Park Inn hótelinu

-Nýr veitingarstaður á pari við það besta í höfuðborginni opnar innan skamms

Miklar breytingar eru framundan á Park Inn hótelinu í Reykjanesbæ því Vocal veitingastaðurinn mun algjörlega breytast og opna undir nýju nafni og áherslum í lok október. Undir nýju nafni verður þar sælkera bistró veitingastaður ásamt glænýjum bar og betrumbættu „loungei“. „Við erum í raun að gera Vocal fokheldan og þangað fer inn þetta nýja concept sem við félagarnir höfum þróað með hótelinu síðan í vor. Þessi nýi staður verður á pari við það allra besta sem höfuðborgin hefur upp á að bjóða í upplifun á mat og drykk ásamt því að við erum að sérflytja inn glæsileg húsgögn frá Ítalíu fyrir staðinn,“ segir Jón Gunnar Geirdal markaðsmaður hjá fyrirtækinu Ysland en hann og lífsstílsmeistarinn Arnar Gauti Sverrisson stýra verkefninu og framkvæmdunum.

Til hvaða markshóps ætlið þið að ná til með þessum breytingum?
Markhópurinn er auðvitað þessi fjölbreytta flóra alþjóðlegra gesta hótelsins en á sama tíma erum við að horfa til nýrrar upplifunar fyrir heimamenn - nú er engin þörf á því að fara út að borða, í brunch eða happy hour til Reykjavíkur - þetta verður staðurinn til þess. Við höfum upplifað það á ferðalögum okkar um heiminn þ.e.a.s., við höfum tekið út öll helstu trendin í mat og drykk og hótelbarir eru gríðarlega vinsælir og þessi blanda viðskiptavina svo skemmtileg, hótelgestir í bland við innfædda.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hvenær er stefnt að því að opna nýjan stað?
Í öllum stórum framkvæmdum fylgir mikil spenna en stefnan er sett á endan október ef allt gengur eftir og sú opnun mun ekki fara framhjá heimafólki eða öðrum.

Nú eruð þið báðir búsettir á höfuðborgarsvæðinu en hafið tengingar til Suðurnesja. Eruð þið að mæta með borgarfjör í bítlabæinn?
Okkur þykir báðum vænt um Suðurnesin, nokkuð sem teygir sig aftur til æsku okkar og fjölskyldu á svæðinu. Arnar Gauti er t.d uppalinn á svæðinu og ég var mikið hérna sem barn í heimsókn hjá ömmu, afa og frændfólki. Verkefnið stendur okkur því mjög nærri og þykir okkur ótrúlega vænt um það og ætlum að skila af okkur stað sem Suðurnesjamenn geta verið stoltir af. En borgarfjör eða ekki. Við erum allavega að koma með glænýjan og glæsilegan valmöguleika í upplifun fyrir heimamenn og aðra áhugasama í mat, drykk og öllu því tengt - og við hlökkum mikið til að kynna staðinn fyrir heimafólki á Suðurnesjum.

Hvað um ykkur?
Í fyrsta lagi höfum við verið vinir í meira en tuttugu ár og þar byrjar þetta í raun. Arnar Gauti er „creative director“ fyrir Húsgagnahöllina og með bloggsíðuna www.sirarnargauti.is á meðan ég hef verið í fjölbreyttum verkefnum fyrir fyrirtæki mitt Ysland. Þetta verkefni okkar í Reykjanesbæ er fyrsta „concept-clinic“ verkefni okkar, þ.e.a.s við tökum stað sem er til staðar og breytum honum frá grunni í nýja og betri allsherjar upplifun. Einnig erum við í mörgum öðrum spennandi verkefnum og áhugaverðir tímar framundan.