Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ný þjónustumiðstöð í Vogum er gjörbylting fyrir sveitarfélagið
Þjónustumiðstöðin og nánasta umhverfi hennar séð úr flygildi Víkurfrétta. Víkurfréttamyndir: Hilmar Bragi
Fimmtudagur 5. desember 2019 kl. 09:36

Ný þjónustumiðstöð í Vogum er gjörbylting fyrir sveitarfélagið

Ný þjónustumiðstöð Sveitarfélagsins Voga var vígð við formlega athöfn á fullveldisdaginn sl. sunnudag. Þjónustumiðstöðin er tæplega 436 fermetra stálgrindarhús með 126 fermetra millilofti. Húsið stendur við Iðndal 4 í Vogum, í næsta húsi við bæjarskrifstofurnar. Lóðin undir þjónustumiðstöðina hafði lengi staðið auð en þar var fyrir sökkull sem aldrei hafði verið byggt á. Aðalverktaki við bygginguna var Sparri ehf. í Reykjanesbæ en Tækniþjónusta SÁ ehf. í Reykjanesbæ hannaði mannvirkið og hafði eftirlit með framkvæmdinni. Húsið mun uppfylla þarfir umhverfisdeildar sveitarfélagsins með öllum þeim tólum, tækjum og búnaði sem þeirri starfsemi fylgir.

Sérhönnuð bygging fyrir umhverfisdeild

Ásgeir Eiríksson, bæjarstjóri í Vogum, segir að nýja þjónustumiðstöðin sé gjörbylting fyrir sveitarfélagið en byggingin sé sérhönnuð fyrir umhverfisdeildina. Í húsinu eru þrír salir. Einn er hugsaður fyrir það sem almennt er kallað áhaldahús sveitarfélags. Einn salur er hugsaður til viðhalds og þrifa á tækjum og þá er þriðji salurinn slökkvistöð fyrir Brunavarnir Suðurnesja. Þar er nú varanlega staðsettur léttur slökkvibíll sem áður þjónaði á slökkvistöðinni í Reykjanesbæ. Staðsetning bílsins í Vogum mun stytta til muna viðbragð slökkviliðs í Vogum og á Vatnsleysuströnd. Nú er verið að fá inn mannskap í Vogum til að sjá um fyrstu viðbrögð ef brunaútkall berst úr Vogum eða af Vatnsleysuströnd. Stefnt er að því að fá inn átta einstaklinga úr sveitarfélaginu sem munu hljóta viðeigandi þjálfun í slökkvistörfum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Í nýju þjónustumiðstöðinni er einnig góð starfsmannaaðstaða fyrir þá fjóra starfsmenn umhverfisdeildar sveitarfélagsins. Þá er einnig aðstaða vinnuskóla sveitarfélagsins í húsinu. Á millilofti er svo góð aðstaða til geymslu á árstíðabundnum búnaði. Við nýju þjónustumiðstöðina er góð afgirt lóð þar sem eru einnig yfirbyggðar geymslur fyrir bæði salt og sand sem notað er til hálkueyðingar- og varna. Þá er við húsið aðstaða til bílaþvottar, sem verður opin yfir sumarmánuðina.

Sparri vann verkið fyrir 98% af kostnaðaráætlun

Eins og fyrr segir var Sparri ehf. aðalverktaki við byggingu hússins. Verktakinn vann verkið fyrir um 98% af kostnaðaráætlun eða um 135 milljónir króna. Arnar Jónsson frá Sparra ehf. afhenti svo Vigni Friðbjörnssyni, forstöðumanni umhverfis og eigna, mannvirkið og féllust þeir í faðma við það tækifæri við lófaklapp gesta. Fjallað er um þjónustumiðstöðina í Suðurnesjamagasíni í þessari viku og þar er rætt við Ásgeir Eiríksson bæjarstjóra og Jón Guðlaugsson, slökkviliðsstjóra Brunavarna Suðurnesja, sem fagnaði sérstaklega þeim áfanga að loks er búið að setja upp varanlega aðstöðu fyrir slökkvilið í Vogum en hugmyndin er orðin a.m.k. 35 ára gömul.

Séð yfir stærsta salinn í húsinu þar sem hið eiginlega áhaldahús verður.


Ásgeir Eiríksson bæjarstjóri, Vignir Friðbjörnsson forstöðumaður þjónustumiðstöðvarinnar og Arnar Jónsson aðalverktaki frá Sparra ehf. við vígslu hússins.

Gestir við opnun þjónustumiðstöðvarinnar.

Fulltrúar Brunavarna Suðurnesja við slökkvibílinn sem verður varanlega staðsettur í Vogum.