Ný sorpeyðingastöð á Suðurnesjum - Varnarliðið vill ekki hafa hana á varnarsvæðinu
Í apríl 1999 náðist samkomulag við Varnarliðið um kaup á þjónustu og framlagi þess til nýrrar sameiginlegrar sorpeyðingastöðvar. Uppfrá því hefur verið unnið að útfærslu þess samkomulags. Stjórn sorpeyðingarstöðvarinnar hefur gert áætlanir um að ný stöð verði talsvert minni en sú stöð sem nú er í rekstri. Gert er ráð fyrir aukinni flokkun og meiri endurvinnslu eftir því sem tækni og hagkvæmni leyfa.Að sögn Guðjóns Guðmundssonar, framkvæmdastjóri Sveitarfélaga á Suðurnesjum, mun nýja stöðin hafa fullkominn mengunarvarna- og reykhreinsunarbúnað, í samræmi við ströngustu kröfur Evrópusambandsins. „Stjórn sorpeyðingarstöðvarinnar hefur m.a. gert ráð fyrir að farið verði að kröfum um útblástursmörk sem eru ekki enn komnar í gildi innan Evrópusambandsins“, segir Guðjón.Varnarliðið hefur nýverið leitað eftir því við sveitarfélögin að nýrri stöð verði fundinn staður utan varnarsvæðanna. Að sögn Guðjóns taldi stjórn sorpeyðingarstöðvarinnar rétt að kanna þann kost og hefur því óskað eftir upplýsingum frá sveitarfélögunum um lóðir sem gætu hentað í þessu skyni.„Ég tel ýmsa kosti geta falist í nýrri staðsetningu stöðvarinnar utan varnarsvæðanna, enda yrði rekstrarumhverfi stöðvarinnar alíslenskt og einfaldara, þar sem einungis er við stjórnvöld eins ríkis er að eiga“, segir Guðjón.Allt frá 1986 hefur þess verið krafist úrgangur sem frá Varnarliðinu kemur sé brenndur, vegna hættu á smiti dýrasjúkdóma. Þrátt fyrir að innflutningsheimildir á hráu kjöti hafi verið rýmkaðar frá þeim tíma, eru þær heimildir háðar ýmsum skilyrðum um heilbrigði afurða. „Samkvæmt okkar upplýsingum uppfyllir innflutningur Varnarliðsins ekki ákvæði íslenskra laga að þessu leyti og því hefur þessum takmörkunum, sem eru á meðferð kjötúrgangs frá Varnarliðinu, ekki verið aflétt. Þess vegna er brennsla heppilegasta lausnin, því að á Suðurnesjum háttar þannig til að það finnst enginn heppilegur urðunarstaður frá náttúrunnar hendi. Berggrunnurinn er gljúpur og stór svæði skagans eru skilgreind sem vatnsverndarsvæði“, segir Guðjón.