Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ný sögusýning um Völlinn í undirbúningi
Mánudagur 26. janúar 2009 kl. 11:15

Ný sögusýning um Völlinn í undirbúningi

Um þessar mundir er Byggðasafn Reykjanesbæjar að undirbúa nýja sýningu í samvinnu við Flug- og sögusetur Reykjaness. Sýningin ber heitið Völlurinn og fjallar hún um Kanann sem vinnuveitanda og nágranna.

Mikill fjöldi fólks starfaði í herstöðinni í þá hálfu öld sem Kaninn hafði starfssemi hér á landi og þó nokkrir eyddu allri sinni starfsæfi á Vellinum. Sýningin mun beina sjónum að þessu fólki.
„Með því að setja upp þessa sýningu viljum við opna augu samfélagsins fyrir
hve merkileg og mikilvæg þessi saga er og ekki síst hve mikilvægt það er
fyrir okkur hér að draga saman þekkingu, muni, myndir og reynslusögur. Ef
við gerum það ekki núna þá er hæpið að það verði gert,“ segir Sigrún Ásta Jónsdóttir, forstöðumaður Byggðasafns Reykjanesbæjar.

Þær Rannveig Garðarsdóttir og Helga Ingimundardóttir hafa að undanförnu verið á vegum safnins að safna viðtölum við fólk sem starfaði á Vellinum. Ásamt reynslusögum er verið að skima eftir munum, myndum og öðru sem vel gæti sómt sér á sýningunni.
Á dögunum tók Helga t.d. viðtal við Sigurð Jónsson, sem í mörg herrans ár stýrði sjónvarpsstöð Vallarins. Við það tækifæri afhenti Sigurður safninu hljóðnema sem hann hafði tekið til handargagns og er einn fyrsti hljóðneminn sem notaður var uppi á Velli.
Ef fólk á í fórum sínum einhverja muni eða man eftir einhverju sem því finnst að ætti heima á sýningunni er það endilega hvatt til að hafa samband við starfsmenn safnins.

Ráðgert er að opna sýninguna 30. mars í Gryfjunni í Duushúsum og mun hún standa yfir í tvö ár. Daginn þann verða einmitt 60 ár liðin frá því Ísland gekk í NATO.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024