Ný slökkvistöð á Fitjum?
Brunavarnir Suðurnesja hafa áhuga á að ný slökkvistöð rísi að Njarðarbraut 11 í Reykjanesbæ. Núverandi slökkvistöð við Hringbraut 125 hefur fyrir löngu sprengt utan af sér húsnæði og þar er þröngt um slökkviliðs- og sjúkrabíla, auk þess sem starfsmannaaðstaða er í gámum á baklóð slökkvistöðvarinnar.
Stjórn Brunavarna Suðurnesja hefur nú augastað á húsnæði sem þegar hefur verið steypt upp að Njarðarbraut 11 á Fitjum í Reykjanesbæ. Húsnæðið er í eigu Landsbankans. Teiknuð hafa verið drög að slökkvistöð í húsinu og hefur erindi verið sent til sveitarfélaga sem koma að rekstri Brunavarna Suðurnesja. Þar er óskað eftir heimild til að ganga til samninga um kaup á húsnæðinu og fjármögnun framkvæmda.
Samkvæmt heimildum Víkurfrétta myndi slökkvistöðin kosta um 300 milljónir króna en gangi hugmyndir stjórnar Brunavarna Suðurnesja eftir gæti slökkviliðið verið flutt inn í nýtt húsnæði innan árs.
Bæjarráð Sveitarfélagsins Garðs hefur samþykkt samhljóða að fá slökkviliðsstjóra til fundar með bæjarfulltrúum til kynningar á málinu.