Ný skólabygging í Grindavík
Nýbygging grunnskólans í Grindavík var tekin í notkun í dag við hátíðlega athöfn. Þessi bygging skiptir miklu máli fyrir skólastarfið þar sem hún er forsenda þess að hægt sé að einsetja skólann og hafa það skipulag að nemendur á svipuðum aldri verði saman í skólabyggingunni. Viðbyggingin er 2000 fermetrar að stærð á tveimur hæðum. Á efri hæð verða kennslustofur fyrir 8.-10.bekk, kaffistofa starfsfólks, skrifstofa skólans, skrifstofur stjórnenda ásamt aðstöðu fyrir hluta af sérfræðiþjónustu. Á neðri hæð verður aðalinngangur skólans og salur. Þar fer einnig fram sala á mat og drykkjum til nemenda. Hluti neðri hæðar verður tekinn í notkun á næsta skólaári. Margt gesta var við athöfnina og meðal ræðumanna var Einar Njálsson, bæjarstjóri Grindavíkur.