Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ný skipaþjónustuklasi skapar hundruð starfa á næstu þremur árum
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
mánudaginn 24. ágúst 2020 kl. 16:18

Ný skipaþjónustuklasi skapar hundruð starfa á næstu þremur árum

Skipasmíðastöð Njarðvíkur undirbýr byggingu stórrar og yfirbyggðrar skipakvíar á starfsvæði sínu. Reykjaneshöfn, í samvinnu við ríkið, byggir skjólgarð svo verkefnið sé mögulegt.

Umfangsmikil uppbygging hafnar- og upptökumannvirkja í Njarðvík þar sem byggður yrði skipaþjónustuklasi til að taka á móti og þjónusta stærstu fiskiskip landsins gæti skapað 250 til 350 bein og óbein störf á næstu þremur árum. Viljayfirlýsing var undirrituð um verkefnið af fulltrúum Reykjaneshafnar, Reykjanesbæjar og Skipasmíðastöðvar Njarðvíkur sem á frumkvæðið að málinu.

„Mörg stærri fiskiskipa flotans hér á landi hafa farið til útlanda til að fá þjónustu, viðgerðir og viðhald. Við ætlum að fjárfesta í yfirbyggðri skipakví sem gæti tekið þessi stærri skip. Það er því til mikils að vinna fyrir okkur og samfélagið á Suðurnesjum. Við teljum það ekki óraunhæft að á fáum árum gæti orðið til í Njarðvík þekkingarklasi í viðhaldi og þjónustu við skip sem teldi um 250 til 350 bein og óbein störf,“ segir Þráinn Jónsson, framkvæmdastjóri Skipasmíðastöðvar Njarðvíkur, en hún er eitt elsta fyrirtæki á Suðurnesjum og státar af 75 árum í rekstri.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Yfirbyggð þurrkví fyrir stór skip

Að sögn Þráins snýr verkefnið sem hér um ræðir snýr að bættri aðstöðu í Njarðvíkurhöfn þannig að unnt sé að skapa tækifæri margra fyrirtækja til byggingar skipaþjónustuklasa sem getur umbylt aðstöðu til þjónustu við íslenskan og erlendan skipaflota og skapað fjölda starfa.

„Þar skiptir mestu að reist verður yfirbyggð þurrkví sem getur sinnt stórum skipum án veðuráhrifa allt árið. Aðstaða við Njarðvíkurhöfn verður þannig fyrir nánast allar gerðir skipa fiskveiðiflotans. Forsenda þessa er að Reykjaneshöfn geri nýjan skjólgarð í Njarðvíkurhöfn sem mun umbreyta allri hafnaraðstöðu þar og skapa möguleika fyrir byggingu kvíarinnar.

Skipasmíðastöð Njarðvíkur undirbýr nú að fjárfesta í yfirbyggðri skipakví sem væri rúmlega hundrað metrar á lengd og yfir tuttugu metra breið. Verkefnið er m.a. að ná auknum hluta íslenskra skipa sem nú sigla í slipp til annarra landa sem og að ná skipum af norðurslóðum til landsins,“ segir Þráinn.

Með umræddu húsi stórbætast möguleikar á hvers kyns viðhaldsverkefnum sem annars eru keypt erlendis. Svo stór og yfirbyggð kví ásamt landi og aðstöðu í og við Njarðvíkurhöfn skapar skilyrði fyrir skipaþjónustuklasa með mörg hundruð störfum.

Þjónustuklasinn mun að sögn Þráins leggja áherslu á þjónustu við skip á norðurslóðum, íslensk sem erlend, til viðhalds, breytinga og endurnýjunar. Auknar kröfur um betri mengunarvarnir í skipum, skipti yfir í vistvæna orku og lækkun orkukostnaðar, skapi ný tækifæri á þessu sviði.

Hugmynd Skipasmíðastöðvar Njarðvíkur gengur út á að nýta sérþekkingu á margvíslegum sviðum sem safnast hefur upp hjá vél- og stálsmiðjum víða á landinu. Öflug málvinnslufyrirtæki og -smiðjur fengju stóraukin tækifæri í verkefnum og þróun. Þannig yrði þjónustuklasinn byggður á fjölda fyrirtækja, hverju með sína sérhæfingu.

– En hvað mun uppbyggingin taka langan tíma?

„Þjónustuklasinn getur tiltölulega fljótt skapað á annað hundrað störf og samfélaginu umtalsverðar tekjur til framtíðar. Bein vinna í hinni nýju kví kallar á 70 til 80 heilsársstörf auk óbeinna starfa. Varlega áætlað er gert ráð fyrir að verkefni fyrst um sinn tengd kvínni skapi þannig um 120 störf. Ekki er óraunhæft að ætla að á fáum árum gæti orðið til í Njarðvík þekkingarklasi í viðhaldi og þjónustu við skip sem teldi um 250 til 350 bein og óbein störf,“ segir Þráinn en áætlaður framkvæmdatími verkefnisins er þrjú ár frá því að fjármögnun þess liggur fyrir.

Skilningur frá yfirvöldum

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri, segir að búið sé að ræða við yfirvöld og þingmenn og góður stuðningur sé við málið en ríkið kemur að byggingu varnargarða sem er forsenda þess að hægt sé að fara í byggingu kvíarinnar. „Þetta er mjög jákvætt og skapar fjölda starfa. Frumkvæðið kom frá Skipasmíðastöð Njarðvíkur og það er einmitt það sem við hjá Reykjanesbæ höfum verið að leita eftir og viljum sjá, að frumkvæðið komi frá öðrum aðilum en sveitarfélaginu. Verði þetta að veruleika sem við getum við bjartsýn um erum við líka að bæta við fjölbreytileikann í atvinnulífinu á svæðinu. Það er nauðsynlegt og hefur komið berlega í ljós í nú í heimsfaraldri þar sem Suðurnesin hafa átt undir högg að sækja þar sem svo mörg störf eru í flugstöðinni og hennar nágrenni,“ segir Kjartan Már.

Mikilvægt fyrir Reykjaneshöfn

Halldór Karl Hermannson, hafnarstjóri Reykjaneshafnar, segir að þetta sé frábært verkefni og muni hafa mikla þýðingu fyrir rekstur hafnarinnar. Þarna erum við að styrkja starfsemi sem þegar er til staðar og gæti skilað okkur bættum rekstri í framtíðinni. Rekstur hafnarinnar hefur lengi verið þungur og uppbygging í Helguvík ekki gengið eins og stefnt hefur verið að. Þá er ekki alltaf á vísan að róa í sjávarútvegnum, t.d. þá hefur makríll sem hefur skilað höfninni all nokkrum tekjum undanfarin fimm ár ekki látið sjá sig á Suðurnesjum í sumar. Við verðum því að horfa til nýrra tækifæra og þarna er tækifæri sem lofar góðu, ekki eingöngu fyrir höfnina heldur samfélagið í heild.

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri, Þráinn Jónsson, framkvædastjóri Skipasmíðastöðvar Njarðvíkur og Halldór Karl Hermannsson, hafnarstjóri Reykjaneshafna.