Ný röntgendeild opnuð á HSS
Ný röntgendeild var opnuð í D-álmunni á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja í síðustu viku að viðstöddum heilbrigðisráðherra, landlækni og bæjarstjórum allra sveitarfélaganna á Suðurnesjum. Samhliða var nýr röntgenmyndgreiningarbúnaður frá Philips tekinn í notkun á nýja staðnum. Búnaðurinn og aðstaðan er algjör bylting fyrir geislafræðinga að vinna við nýja tækið þar sem gamla tækið var búið þungum myndplötum sem þurfti að burðast með fram og til baka.
Tækið heitir Philips Digital diagnost C90 high performance. Það er stafrænt og hefur það jákvæð áhrif bæði fyrir starfsmenn og sjúklinga sem verið er að mynda. Tækið er búið m.a. þeim kostum að vera með fjarstýrðan búnað, myndavél, frábær myndgæði og geislaskammtastýringu sem er einstaklingsmiðuð. Þetta auðveldar geislafræðingum vinnuna, afköstin verða betri og ánægðari upplifun sjúklinga. Kostnaður tækisins var tæplega 48 milljónir.
Árið 2021 voru gerðar tæplega fimm þúsund röntgenrannsóknir á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.
Opnun röntgendeildarinnar á nýjum og rúmbetri stað innan Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja er fyrsti áfangi í stóru verkefni á breytingum húsnæðis HSS. Næsti áfangi framkvæmda er að innrétta nýja slysa- og bráðamóttöku við hlið röntgendeildarinnar, jafnframt því sem móttaka sjúkrabíla. Frekari framkvæmdir eru fyrirhugaðar eða þegar í gangi og verður greint nánar frá þeim í Víkurfréttum í næstu viku.