Ný og glæsileg brottfararverslun Fríhafnarinnar
Fríhöfnin ehf. hefur opnað nýja og glæsilega verslun fyrir brottfararfarþega á 2. hæð Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Gólfflötur verslunarinnar er 1.150 fermetrar, sem lætur nærri að vera tvöföldun frá því sem var í gömlu Fríhafnarversluninni. Það er því vítt til veggja og rúmt um gesti í nýju versluninni og allar aðstæður til viðskipta og vörukynningar eru eins og best verður á kosið. Mikil áhersla var lögð á góða lýsingu í verslunarrýminu og margir viðskiptavinir sjá einmitt ástæðu til að hrósa lýsingunni sérstaklega.
„Markmiðið var að geta boðið farþegum enn betri þjónustu í rúmgóðri og bjartri verslun þar sem þeir gætu kynnt sér vörur í næði og ættu notalega stund fyrir brottför af landinu. Fyrstu viðbrögð viðskiptavina okkar benda eindregið til að þetta hafi tekist,“ segir Hlynur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Fríhafnarinnar. „Stóraukið húsrými gefur okkur færi á að kynna og sýna vörurnar betur og á markvissari hátt en áður, til dæmis er athyglinni beint að íslensku sælgæti og áfengi á sérstökum svæðum í versluninni.“
Í Fríhafnarversluninni verða áfram seldar snyrtivörur, sælgæti, áfengi og tóbak og til skamms tíma einnig ýmis tæki og margmiðlunarvörur. Breyting verður á hinu síðarnefnda um næstu mánaðamót þegar ELKO opnar raftækjaverslun á brottfararsvæði flugstöðvarinnar og Skífan opnar verslun með tónlist, kvikmyndir, tölvuleiki og tengt afþreyingarefni.
Fríhöfnin ehf. rekur nú fjórar verslanir í flugstöðinni, tvær fyrir brottfararfarþega, eina ætlaða skiptifarþegum frá löndum utan Schengen svæðisins og þá fjórðu fyrir komufarþega á 1. hæð.
Sjá frétt í vefsjónvarpi Víkurfrétta á forsíðu vf.is