Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ný leigubílastöð á gömlum grunni hefur rekstur
Mánudagur 30. apríl 2007 kl. 12:00

Ný leigubílastöð á gömlum grunni hefur rekstur

Leigubílstjórar sem hafa keyrt fyrir Aðalbíla munu hefja rekstur á nýrri leigubílastöð, Aðalstöðinni-BSH, eftir miðnætti í kvöld, og verða höfuðstöðvar þeirra á Hafnargötu 86 þar sem Dominos er til húsa og Aðalstöðin var til húsa í áraraðir.

„Við ætlum bara að sinna okkar fólki eins vel og hægt er og erum komnir með nýtt símanúmer sem er 420-1212,“ sagði Ingólfur Jónsson, formaður Fylkis, félags leigubílstjóra, en þeir verða einnig með stöð í Hafnarfirði.

Upphaf að þessu máli má rekja til þess að Aðalbílar voru seldir Nýju Leigubílastöðinni í upphafi marsmánaðar án vitneskju leigubílstjóranna sem brugðust illa við hugmyndum nýrra eigenda.

Einar Ágústsson, framkvæmdastjóri Nýju Leigubílastöðvarinnar, sagði í viðtali við Víkurfréttir að sýnt væri að margir myndu hætta hjá þeim, en þeir myndu engu að síður halda ótrauðir áfram.


„Við héldum að það væri hægt að ná sátt í þessu máli en það eru einhverjir sem vilja fara aðra leið og þá gera menn það bara. Þeir sem eru áfram eru áfram og þeir sem hætta hætta. Það kemur í ljós á miðnætti hverjir verða áfram. Það hefur alltaf verið okkar markmið að veita bæjarbúum góða þjónustu. Við höfum haft það að leiðarljósi að setja viðskiptavininn í forgang og höldum því áfram.“

Vf-mynd/Þorgils

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024